
Það er merkilegt að fylgjast með hvernig atburðir gerast í beinni útsendingu á samfélagsmiðlum, maður hefur aldrei upplifað þetta sterkar en í hryðjuverkaárásunum í París í gær. Út um heiminn berast skilaboð frá manni sem er fastur inni á tónleikastað í miðri árás. Allt í einu gýs upp umræða um árás í Les Halles hverfinu – en það reyndist ekki rétt.
En að sumu leyti er þetta ógnvekjandi líka. Allir eru að reyna að hafa skoðanir á atburðum sem þeir vita eiginlega ekkert um, upplýsingarnar eru algjörlega ónógar og inn í umræðurnar stígur alls konar fólk sem er jafnvel í misjöfnu ástandi og smátt og smátt fer manni að líða eins og að í heiminum ríki algjör ringulreið.
Maður fer að spyrja hvað samfélagsmiðlarnir séu að gera við sálarlíf okkar og sýn á veröldina?
Þannig var ég að lesa í gær færslur eftir fólk sem staðhæfði fullum fetum að þriðja heimsstyrjöldin sé hafin. Hjá sumum upplifði maður einkennilega kátínu yfir að nú væri allt komið til andskotans. Aðrir heimtuðu einhverjar tafarlausar aðgerðir, hverjar sem þær eiga að vera. Böndin voru jafnvel farin að berast að hælisleitendum á Reykjanesi. Þetta var innan um aðra sem voru að pósta misjafnlega óstaðfestum fréttum og svo myndum af franska fánanum og táknmyndum franska lýðveldisins.
Og eftir þennan hrærigraut er maður einhvern veginn engu nær, jú, reyndar finnur maður meiri nálægð við atburðina en í eina tíð, en upplýsingarnar sem maður hefur og forsendurnar til að meta þetta allt eru einhvern veginn lélegri en ef maður hefði bara fengið góða fréttaskýringu eða lesið vandaða grein. Það er ekki auðvelt að vera stjórnmálamaður í heimi þar sem upplýsingaflaumurinn er svo stjórnlaus og óskaplegur – maður er hálfpartinn farinn að biðja fyrir þeim sem þurfa að taka ákvarðanir út frá atburðum gærkvöldsins.