

Þessi er sjötugur í dag. Hann var ógurleg stjarna á bernskuárum mínum, gaf út plötur sem næstum allir unglingar áttu, After the Gold Rush og Harvest, þetta er nánast eins og einkennismúsík áranna upp úr 1970, og svo var hann í líka hljómsveit með félögum sínum CSN – þá bættist Y við.
Hann er Kanadamaður, ólst upp í Winnipeg, og nei, hann er ekki af íslenskum ættum þótt spekúlasjónir hafi verið uppi um það.
Ég viðurkenni að ég hef ekki enst til að fylgja honum alla tíð, en á unglingsárum keypti ég allt sem hann gaf út, meira að segja plötur sem eru gleymdar og grafnar. Það er reyndar svolítið fallegt hvernig hann sneri stundum við blaðinu, ef hann sendi frá sér tónlist sem náði vinsældum mátti heita öruggt að næst gerði hann eitthvað sem var alveg vonlaust að næði hylli.
Eða hver man eftir Time Fades Away sem kom beint á eftir hinni ógurlegu metsöluplötu Harvest?

Young er vissulega mistækur, en virkar alltaf heill og sannur, hugsjónamaður. Ég sá hann á tónleikum í Barcelona 1986, þar sem skiptust á kassagítarmúsík og rafmagnaður graddi. Þá var ég ekki í miklum tengslum við hann en mér fannst gaman að heyra hann syngja It´s better to burn out than to fade away.
Annars legg ég þetta í hendur Óla Palla á Rás 2 sem dáir Neil meira en aðra menn. En þetta finnst mér með bestu lögum hans – og reyndar eitt af bestu lögum í þessari deild sem einhvern tíma var kölluð þjóðlagarokk (folk/rock).