

Við fjölluðum í Kiljunni í kvöld um bók sem ég tel vera ein merkustu tíðindin nú í haust/vetur, Profeterne i Evighedsfjorden eða Spámennina í Botnleysufirði eins og hún heitir í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar. Höfundurinn er Daninn Kim Leine, bókin hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2013.
Eitt sinn var sögð sú saga að þrír vinir og rithöfundar, Gyrðir, Kalman og Óskar Árni, hefðu iðkað göngutúra á kvöldin og þá rætt um Stóru-Norrænu, það er stóru norrænu skáldsöguna. Sagan er kannski ósönn, en í þessu samtali gæti hafa borið á góma Halldór Laxness, William Heinesen og Johannes V. Jensen – þá líklega bókin Fall konungsins.
Hin mikla skáldsaga Leines minnir á alla þessa höfunda. Hún er epísk eins og verk þeirra. Bókin gerist í Kaupmannahöfn og á Grænlandi á síðustu árum 18. aldar og fyrstu árum 19. aldar. Aðalpersónan Morten Falck er Norðmaður sem fer til náms í Danmörku, hneigist til náttúrufræði en lærir til prests. Kynnin af sollinum í þröngbýlli borginni breyta honum, það eru ógurlegar lýsingar, og loks ákveður hann að fara sem prestur og kristniboði til nýlendubyggðar á Grænlandi.
Lífið sem bíður hans þar er sérkennilegt og erfitt. Grænland er kalt og afskekkt og siðir hinna innfæddu framandi. Í raun tortímir landið öllum aðkomumönnum, en um leið eyðileggja þeir líf Grænlendinganna. Um tíma virðist þó ríkja eins konar jafnvægi í skrítnum söfnuði hjónanna Habakúks og Maríu Magðalenu, innfæddra hjóna sem túlka kristindóminn á sinn hátt.
Línurnar í þessari skáldsögu eru afar stórar. Leine bjó reyndar sjálfur á Grænlandi og lenti þar í veseni og óreglu eins og klerkurinn Falck. Einhverjir drættir eru frá honum sjálfum í bókinni. En lýsingarnar á lífinu í nýlendunni á hjara veraldar eru sérlega skilmerkilegar – annars vegar Evrópumennirnir með sína þröngu og heftandi siði og hins vegar heiðingjarnir sem þeir eru að reyna kristna og temja – jú, og græða á – en búa saman í skálum þar sem þeir bera sitt nakta hold og hafa litlar hömlur í kynferðisefnum. Margir Evrópubúarnir misnota þetta kynfrelsi, á sama tíma og þeir boða kristindóm.
Milli lendir svo hinn ráðvillti Falck sem hefur sína lífspeki upp úr Rousseau: Maðurinn er fæddur frjáls og hvarvetna liggur hann í hlekkjum.
Það er gríðarlegur fengur að svona vönduðum þýðingum á heimsbókmenntum, því það er þessi bók Leines – heimsbók.
