

Vinur minn afar góður var ungur afreksmaður í íþróttum – í sjálfu ríkinu þar sem sportidjótismi hefur risið hæst í sögunni, Austur-Þýskalandi.
Hann keppti í einni grein frjálsra íþrótta og var valinn til að fara í sérstakan afreksskóla þar sem unglingar voru þjálfaðir. Margir félagar hans kepptu á Ólympíuleikum, sumir unnu verðlaun, jafnvel gull. Sjálfur sá hann í gegnum bixið og hætti. Þá var hann kominn í ónáð hjá ríkinu, fékk ekki að mennta sig – það endaði með því að hann komst vestur 1985.
Hann er næstum nákvæmlega jafngamall og ég – ég spegla mig dálítið í honum. Hvernig hefði ævi mín orðið ef ég hefði alist upp undir alræðisstjórn þar sem maður er settur út í kuldann ef maður lýtur ekki valdboðinu? Vinur minn getur ekki leynt beiskju sinni þegar hann minnist æskuáranna.
Hann slapp þó við eitt, í akademíunni sem átti að gera hann að íþróttastjörnu voru ungmennin sett á lyf sem áttu koma þeim í fremstu röð. Það tókst, Þýska alþýðulýðveldið átti fleiri afreksíþróttamenn en nokkurt annað ríki í sögunni. Íþróttafrægðin var sjálft ídentítet ríkisins – það var varla neitt annað eftir.
Samfélagið var alveg staðnað, listir og menning þrifust lítt, en það var hægt að þjálfa fólk upp í að hlaupa hratt og hoppa hátt, eða gera það með sviksemi.
Vinur minn hætti í tæka tíð – hann komst undan lyfjasukkinu sem á endanum eyðilagði heilsu austur-þýska íþróttafólksins af kynslóð hans. Margir af félögum hans frá þessum tíma eru dánir – sumir af þeim Ólympíuverðlaunahafar. Þetta var ansi hár fórnarkostnaður.
Ég fór að hugsa um þetta þegar ég sá fréttir af því að í Rússlandi halda þeir enn uppteknum hætti frá gömlum tíma – það kemur á daginn sem marga grunaði að í kringum íþróttirnar þar er stunduð stórfelld lyfjaneysla, svo mjög að til tals kemur að banna Rússa frá alþjóðlegum keppnum. Rússar þræta auðvitað fyrir og telja þetta vera lið í alheimssamsæri gegn sér.
Líkt og í Þýska alþýðulýðveldinu er þetta auðvitað sjúkleikamerki á samfélaginu, það er eitthvað mikið að í ríkjum þar sem svona hegðun þykir sjálfsögð og eðlileg. Það er fokið í flest skjól þegar ríki sýna mátt sinn og megin með slíkum hætti.

Íþróttir voru aðalmálið í DDR undir lokin. Íþróttamönnum voru gefin lyf svo þeir næðu árangri.