

Frá sjónarhóli PR-fræða áttu Björk og Andri Snær stórleik þegar þau héldu blaðamannafund á miðri Airwaves hátíðinni. Skilaboð þeirra bárust til erlendu pressunnar og þaðan aftur hingað heim. Þetta var mjög áhrifamikið. Þau kalla á heiminn að styðja sig gegn ríkisstjórn Íslands.
En eins og oft áður eru upplýsingarnar sem við höfum til að móta viðhorf okkar mjög ófullnægjandi. Þau tala um að uppi séu 54 áform um virkjanir á næstu mánuðum – það er kannski ekki alveg nákvæmt.
Átaki þeirra er ekki síst beint gegn hugmyndum um að leggja sæstreng fyrir raforku til Bretlands. Landsvirkjun hefur haldið því fram að ekki þurfi stórfelldar virkjanir fyrir slíka framkvæmd, heldur sé að talsverðu leyti um það að ræða að bæta nýtinguna í kerfinu.
Inn í þetta spila náttúrlega ýmsir þættir. Þarf þjóð sem er að ganga í gegnum brjálæðislegan uppgang í atvinnugrein eins ferðamennsku á svona framkvæmdum að halda – það er náttúrlega alveg ljóst að það sem ferðamenn sækjast eftir er hin ósnortna náttúrla landsins – eða á hér við eins og stundum er sagt að þurfi að skjóta fleiri stoðum undir þjóðarbúskapinn?
Og svo er annað sem gæti verið breyta í málinu, hugsanleg lokun álvera á Íslandi á næstu árum vegna verðhruns á álmörkuðum, offramleiðslu eða vegna þess að þau geta ekki borgað verðið sem Landsvirkjun vill fá fyrir orkuna.
En eins og áður segir stigu Björk og Andri Snær fram með þeim hætti að þau fylkja um sig náttúruverndarsinnum bæði hér heima og erlendis. Eftir fundinn var jafnvel farið að skora á Andra að bjóða sig fram til forseta Íslands.
