

Við erum að koma að tímanum þegar stóra útsalan hefst í íslensku samfélagi – brunaútsalan myndu einhverjir kalla það.
Og hverjir verða kaupendurnir? Hverjir hafa áhuga?
Það virðist vera að að aðferðin til að eignast banka sé að stofna fjárfestahóp og reyna síðan að ná lífeyrissjóðum til liðs við sig. Þeir eru lykillinn að þessu.
Hér er til dæmis merkileg frétt á Hringbraut sem segir frá því að gamlir starfsmenn úr Kaupþingi, menn sem flugu hátt fyrir hrun, séu komnir saman í hóp um að reyna að ná Arionbanka ásamt nokkrum öðrum sem eru vel þekktir. Má jafnvel segja að þetta séu það sem á ensku kallast the usual suspects. Það er nákvæmlega ekkert óvænt í þessu – og það er máski vandinn.
Getur verið að sporin hræði? Hvernig munu lífeyrissjóðir meta framtíðar viðskiptafélaga sína? Svo hlýtur maður að spyrja, hverjir í okkar litla klíku- og hagsmunasamfélagi eru hæfir til að eiga banka?
Andri Geir Arinbjarnarson skrifar pistil um þetta hér á Eyjuna og segir:
Það verður spennandi að sjá hvor hópurinn nær völdum yfir Arion banka. Það virðist vera í höndum lífeyrissjóðanna að ákveða það? Ætli stjórnir þeirra munu spyrja eigendur sína ráða? Varla. Hver verður aðferðafræði lífeyrissjóðanna í þessu vali? Það væri fróðlegt að vita.
Það sem er sorglegt við þetta allt saman er að enn eina ferðina eru það verðbréfafyrirtæki sem ráða ferð. Hvar er hópurinn sem samanstendur af fólki með yfirgripsmikla reynslu af viðskiptabankaþjónustu – fólk sem setur heimilin og lítil fyrirtæki í fyrirrúm?
Það eru því miður litlar líkur á að íslenskum bönkum verði stjórnað að fólki með alvöru bankareynslu. Þetta verða fyrst og fremst vildarvinir lífeyrissjóðanna og stjórnmálastéttarinnar. Rannsóknarskýrsla Alþingis gæti allt eins hafa verði skrifuð á 18. öld og komin í örugga geymslu á virðulegu safni.
