
Merkilegir þessir karlar, aðallega eldri karlar, sem hneykslast á játningum í bókum og fjölmiðlum. Jú, ókei, forsíðurnar geta stundum orðið aðeins of margar, en sama samt.
Við sem erum komin á miðjan aldur munum líka gamla samfélagið, þögnina, leyndarmálin.
Þegar ekkert var látið uppi um samkynhneigð, þegar heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi, barnaníð og áfengissýki lá í þagnargildi og eitraði líf einstaklinga og fjölskylda – allt skyldi vera kirfilega lokað bakvið veggi. Skömmina og sálarmeinin áttu menn að bera í hljóði.
Nei, það var ekki betra. Hinn opinskái nútími er mun skárri.