

Þú veist að þú ert orðinn geðveikur þegar þú vaknar í heimi þar sem þjóðkirkjuprestar móðgast fyrir hönd miðla.
Þetta skrifaði einn vinur minn á Facebook í gærkvöldi eftir að hafa orðið vitni að því að prestur hvetur til þess að Stöð 2 verði sniðgengin vegna umfjöllunar um miðla.
Það er svolítið eins og maður stigi nokkra áratugi aftur í söguna – það er ansi langt síðan hefur verið deilt um andatrú á Íslandi. Þetta er nánast eins og að sjá uppvakning.
Spírítisminn varð mjög fyrirferðarmikill á fyrri hluta 20. aldar og aðeins fram á þann síðari. Vald kirkjunnar minnkaði, þetta var tíminn þegar alls kyns trúarhópar ruddu sér til rúms, miðilsfundir og alls kyns sálarrannsóknir komust í tísku – sumir miðlarnir urðu þjóðfrægar persónur eins og Indriði og Hafsteinn. Það kom líka fyrir að svikamiðlar voru afhjúpaðir, Lára miðill var dæmd í fangelsi fyrir svik á miðilsfundum. Þarna spilaði inn í að lífið var talsvert erfiðara og þjáningarfyllra en það er í dag, barnadauði var ennþá mikill, dánaraldur var lægri. Í spírítísmanum birtist söknuður eftir ástvinum, en um leið voru þeir til sem töldu að hægt væri með þessum hætti að gera einhvers konar vísindalega skoðun á handanheimum.
En kirkjan stóð gegn spírítismanum og það var býsna harðvítug barátta. Vissulega voru til prestar sem voru hallir undir spírítismann og urðu frægir fyrir vikið, en meginstraumurinn hafnaði honum algjörlega. Ef kristin kenning er skoðuð er það líka eins og hrein trúvilla að hægt sé að ræða við dáið fólk.
Sjálfur var ég alinn upp í húsi þar sem kristindómur var mjög í hávegum hafður. Einhvern tíma þegar ég var strákur og var að selja Vísi hafði prestur keypt af mér blaðið og verið almennilegur við mig. Ég talaði vel um prestinn í eyru hinna kristnu fjölskyldumeðlima. Það dimmdi dálítið yfir matborðinu, presturinn var einn helsti forvígismaður spírítisma í röðum kirkjunnar. Afi minn var einn helsti andstæðingur spírítistanna ásamt Sigurbirni biskupi.
Þetta var á árunum þegar rit um dulræna reynslu voru ennþá heil bókmenntagrein, væru sérstakur flokkur í Bókatíðindum. Tugir slíkra bóka komu út á hverju ári. Það er til marks um hvað lítið er eftir að spírítismanum að svona bækur birtast varla lengur – en þó má nefna eina bókina Sumarlandið sem kom út fyrir nokkrum árum og náði óvæntri metsölu. Þar voru „viðtöl“ við dáið fólk, sumt þjóðþekkt – meðal annars menn sem sögðust hafa haft á röngu að standa um spírítismann meðan þeir lifðu!
