
Vinur minn einn, sem oft hefur reynst glöggur skýrandi kosninga og samfélagsmála, segir að stjórnarflokkarnir „hafi þetta allt í hendi sér“.
Þeir muni hafa nægt fé handbært til þess að „kaupa“ næstu kosningar ef þurfa þykir. Þessi maður telur að ríkisstjórnarflokkarnir verði nærri því að ná meirihluta saman aftur í kosningunum 2017.
Það er náttúrlega eitt og hálft ár þangað til – en maður verður meira hugsi eftir því sem mánuðunum fjölgar þar sem Píratar hafa meira fylgi en stjórnarflokkarnir samanlagt. Það er auðvitað ótrúlegt – og menn hljóta að spyrja hvaða skilaboð felist í þessu?
Og hver eru svörin?
Kristinn Hrafnsson blaðamaður skrifar pistil um þetta á Facebook:
Það er hreint ótrúlegt að ekki er meiri umræða og greiningar á þessum sláandi pólitísku breytingum í landinu. 40 prósent kjósenda hafna ,,fjórflokknum”. Vissulega er píratafylgið mögulega gult spjald sem ekki endar í kjörseðlakrossum en þetta eru makalaus tíðindi sem hafa aðeins hliðstæðu í Besta flokks grínframboðinu í borginni. Þetta eru sláandi skilaboð og svo hávær krafa um breytingar að hún verður ekki umflúin. Hátt í helmingur kjósenda er í fullkomnu andófi.
Það er alveg sama þó að stjórnarflokkarnir búi til leiksýningar, boði linnulítið heimssöguleg tíðindi, keppist við að draga kanínur úr hattinum og gefi peninga; staðan breytist ekki.
Stjórnarflokkarnir þumbast bara áfram og þykir nú töffaralegt að pönkast í RUV sem er aðeins gert fyrir glataða þriðjunginn sem virðist hvort eð er llímfastur við spillingarflokkana tvo, yst til hægri.
Það er alveg ljóst að þeir flokkar stóla á það eitt að lofa peningagjöfum og beita populískum áróðri á grunni ótta og útlendingahaturs, þegar nær dregur kosningum. Og víst kann það að virka.
Hægri jafnaðarflokkarnir tveir eru í tilvistar- og forystukreppu og virðast eiga litla möguleika á að ná vopnum sínum. Björt framtíð er þegar dottin niður fyrir 5% þröskuldinn og gæti þurrkast út. Forysta Samfylkingar virðist ekki hafa nein skilaboð sem kjósendur taka eftir – eða taka mark á. Vinstri grænir eru með formann sem nýtur einna mest trausts í pólitík í landinu en hún er eins og í röngum skóm með flokk í eftirdragi sem fólk tengir helst við stjórnlyndi og afturhald. Ef til vill ætti Katrín betur heima meðal Pírata.
Þeir virðast svo heldur værukærir og gengur seint að fóta sig í kjötheimum með nútímalega blöndu frjálslyndis og jafnaðarstefnu. Píratar hafa ekki endalausan tíma til að selja þjóðinni heildræna sýn. Ef það mistekst verða það örlög flokksins að vera stoppistöð en ekki endastöð hinnar ólgandi óánægju.