

Ójöfnuður fer vaxandi í hinum vestræna heimi og hefur ekki verið meiri um langt skeið, en á sama tíma valda tækniframfarir miklum breytingum á vinnumarkaði. Vinnandi fólk verður óþarft – tækni er notuð til að vinna störfin í meira mæli en nokkru sinni áður. Auðævi jarðarinnar færast sífellt á færri hendur.
Þetta er þróun sem getur varla endað nema með skelfingu. Við erum því miður langt frá þeirri björtu framtíð sem menn dreymdi um, þar sem vélar vinna störfin og mannkynið er frjálst til að sinna hugðarefnum sínum, auðga andann og iðka fagrar listir eins og í lagi Donalds Fagen, International Geophysical Year. Í slíkri framtíð felst náttúrlega að auði heimsins sé skipt á réttlátan hátt.
Það verður ekki hægt að líða að einungis þeir sem eiga hagnist á tækniframförunum – annars er varla langt í að heykvíslar fari á loft. Hinir eignalausu – verkalýðurinn eins og það var kallað áður fyrr – þurfa líka að sjá sér farborða, geta verið virkir í samfélaginu, sem jafngildir borgarar – já og líka sem neytendur.
Ein aðferðin er að fækka vinnustundum. Reyndar hefur tæknin þegar gert það. Eitt sinn hefði fjörutíu stunda vinnuvika þótt óhugsandi. Verkafólk vann 60-70 tíma á viku. Það stritaði, drap sig á vinnu. Þeir sem ekki gerðu það voru að svíkjast um. Það eimir eftir af þessu – við tölum ennþá um að vinnan göfgi manninn. Gerir hún það endilega?
Þetta bar á góma á spaugilegan hátt í kappræðum Repúblikana fyrir bandarísku forsetakosningarnar um daginn. Það er einhvern veginn þannig að Bush-fjölskyldan má varla heyra minnst á Frakka án þess að hún fari að froðufella. Kannski af því Frakkar hafa oftar rétt fyrir sér en Bush-fólkið?
Frægt var hvernig franskar kartöflur urðu frelsiskartöflur á tíma Íraksstríðsins, það var þegar Frakkar voru að reyna að koma vitinu fyrir George W. Bush, en nú var það Jeb Bush sem spurði hvort Bandaríkjamenn vildu verða eins og Frakkar, fara að vinna stuttan vinnutíma. Í Bandaríkjunum búa launþegar við mikið óöryggi, vinna langan vinnudag, fá lítil sumarfrí – stórir hópar vinnandi fólks geta ekki framfleytt sér á laununum. Hjá fyrirtækjum eins og Amazon bíður verkafólk við dyrnar í von um að fá að vinna þann og þann dag (Amazon er eitt ógeðslegasta fyrirtæki í hinum vestræna heimi) – svona eins og karlarnir á við höfnina í Reykjavík á kreppuárunum.
Nú er þetta líka rætt á Íslandi. Fjármála- og félagsmálaráðherra hafa nefnt að til greina komi að fækka vinnustundum. Ysta hægrið á Viðskiptablaðinu grípur þetta á lofti og spyr hvort sé ekki nær að reka bara fólk fremur en að stytta vinnutíma þess.
Ágætur skríbent á Facebook, Friðrik Jónsson, bregst svona við:
Já, ef svona miðaldahugsunarháttur VB.is varðandi réttindimál starfsmanna og verkalýðs hefði fengið að ráða á fyrri hluta síðustu aldar þá líkast til værum við enn með 6 daga vinnuviku….