

Það er vitnað í Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem spurði í viðtali í gær hvort við myndum stofna Ríkisútvarp núna ef við hefðum það ekki?
Það má sjálfsagt gefa margvísleg svör. Eitt svarið er að alls staðar í löndunum í kringum okkur er Ríkisútvarp og það er sterkast í löndunum sem við berum okkur helst saman við – Norðurlöndunum og Bretlandi.
Ein spillingar- og hrunstjórnin í Grikklandi lokaði gríska ríkisútvarpinu árið 2013. Stjórn Syriza með Alexis Tsipras forsætisráðherra opnaði Ellinikí Radiofonía Tileórasi (ERT) aftur síðastliðið sumar. Það var eitt stærsta mál flokksins, enda skildu kjósendur að það væri óhæfa að öll fjölmiðlun væri í höndum fjármagnsafla.
Það sem við þurfum auðvitað eru sterkir fjölmiðlar sem eru óháðir hagsmunaöflum og þurfa heldur ekki að óttast að stjórnmálamenn sitji um þá. Það þarf líka betri stjórnsýslu, þar sem er farið eftir leikreglum sem gilda til lengri tíma, þar sem ræður ekki geðþótti eða það sem Guðmundur Andri Thorsson kallar Óttastjórnun í pistli í dag.
Menn skyldu gera sér grein fyrir því að hið mikla fylgi Pírata er ekki síst krafa um betri stjórnarhætti.