
Tilgangur skýrslu um Ríkisútvarpið virðist aðallega hafa verið að efna til óvinafögnuðar um það. Má spyrja, hefði verið eitthvað að því að fá til verksins skýrsluhöfunda sem hafa eitthvað vit á fjölmiðlum?
Það er erfitt annað en að taka undir með þingmanninum Róberti Marshall sem segir að skýrslan snúist aðallega um prívatskoðanir nefndarformannsins. Það er svo merkilegt að sjá hverjir stökkva á vagninn. Þar á meðal er formaður fjárveitingarnefndar Alþingis sem er vægast sagt afskaplega illa við Ríkisútvarpið, notar næstum hvern dag til að hnýta í það. Eitt helsta hugsjónamál hennar í nefndinni virðist vera að skaða Ríkisútvarpið – og má spyrja hvernig það samræmist svo virðulegri stöðu þar sem hjóta að vera ákveðnar kröfur um sanngirni. Þetta er í raun ekki boðleg stjórnsýsla, að á hverju einasta ári eigi stofnanir allt sitt undir duttlungum stjórnmálamanna og þurfi að fara bónarveg til þeirra.
Mest eru auðvitað lætin á haustin og fyrri part vetrar fjárlög eru til umræðu – á einum stað var það kallað „haustherferðin gegn RÚV“. Skýrslan kemur mátulega ofan í hana. En svo má líka heyra úr stjórnarliðinu sanngjörn og tímabær viðhorf, eins og í þessum pistli eftir Karl Garðarson.
Áður en skýrslan birtist voru farin að leka út drög að henni – efnisatriði sem öll sýndu Ríkisútvarpið í mjög neikvæðu ljósi. Sumt af því hefur verið leiðrétt rækilega síðan. Það var farið að tala um „rannsóknarnefnd“, þegar staðreyndin er sú að þetta er „starfshópur“ á vegum menntamálaráðuneytisins.
Starfshópurinn efnir svo til blaðamannafundar með pompi og prakt í sjálfu Þjóðmenningarhúsinu, það dugir ekkert minna, og þá kemur í ljós að hann er með sérstakan fjölmiðlafulltrúa sér til halds og trausts.
En skýrslan er því miður hroðvirknisleg og það vakna grunsemdir um að hún sé fyrst og fremst pólitískt plagg. Þarna er furðulegur samanburður við 365 þar sem er skautað framhjá hlutverki Ríkisútvarpsins eins og það er skilgreint í lögum og í þjónustusamningi. Hliðstæður við erlendar sjónvarpsstöðvar eru skringilega valdar – allur sá samanburður er svo bjagaður að hann stenst enga skoðun. Í kynningu skýrslunnar er lítið gert með aðhaldsaðgerðir síðustu missera og það aðalatriði að stöðugt er klipið af útvarpsgjaldinu og að það hækkar ekki í samræmi við verðlagsþróun, RÚV er semsagt rækilega undirfjármagnað. Og svo eru þarna alls kyns vangaveltur, afskaplega ómarkvissar, nánast eins og persónuleg tjáning, um innreið erlendra efnisveita á íslenskan sjónvarpsmarkað.
Jú, það er reyndar athyglisvert. Verði Ríkisútvarpið selt eða lagt niður er líklegt að sjónvarp á Íslandi komist meira og minna í hendurnar á símafyrirtækjum eins og ég vék að í fyrri grein. Þróunin er í þá átt – kannski finnst einhverjum það björt framtíð?
Það er reitt hátt til höggs í þessari skýrslu. Hún vekur tortryggni – er það af ásetningi? Sem grundvöllur umræðu er hún afskaplega vond. Hefði ekki verið nær að fá alvöru sérfræðinga í rekstri fjölmiðla til að gera vandaða, ítarlega og málefnalega úttekt. Slíku var augljóslega ekki til að dreifa að þessu sinni.
Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir skrifar á Facebook:
Ég verð strax tortryggin þegar Vigdís Hauksdóttir segist vilja grípa til aðgerða strax. Einhvern veginn finnst manni að nú sé fólk í valdamiklum stöðum sem vinni hreinlega markvisst að því að rústa Ríkisútvarpinu (RÚV) með því að finna því allt til foráttu og hiki ekki við að hagræða sannleikanum þangað til það trúir hreinlega sjálft brenglaðri áróðursútgáfu af málunum. Ég vona að við höfum rænu á að standa vörð um þessa mikilvægu stofnun þó að það sé jafnvel reynt að telja okkur trú um ævintýralega vitleysu á borð við þá að netmiðlar og stöðvar á ensku, kannski á borð við FOX, geti komið í stað fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Það er ekki sanngjarnt að bera Ríkisútvarpið og margslungið, flókið hlutverk þess saman við aðra fjölmiðla á Íslandi, slíkur samanburður er í besta falli barnalegur og til þess gerður að rugla fólk í ríminu, en mikilvægi þess að RÚV sé öflugt í alla staði ætti enginn að efast um. Það er heldur ekki sanngjarnt að fara með fleipur og halda því fram að við hér borgum hvert og eitt meira fyrir þessa mikilvægu þjónustu en aðrir Norðurlandabúar þegar staðreyndin er sú að því er öfugt farið, þrátt fyrir fámennið.
Þessi málflutningur heldur engu vatni og einhvern veginn læðist að manni sá grunur að einhverjir hafi blindast svo í þeim ásetningi að veikja Ríkisútvarpið og sverta það í augum almennings að þeir hafi hætt að gera mun á réttu og röngu í æsingnum. Vonandi sjá aðrir fjölmiðlar sóma sinn í að reyna að greina áróður frá staðreyndum. Við þurfum á öflugu ríkisútvarpi að halda ef við ætlum að standa vörð um lýðræðið, margþætta menningu og mikilvægi þess að ólík sjónarmið fái að heyrast á hlutlausum vettvangi. Stjórnmálamenn verða að sameinast um að aðstoða stjórnendur RÚV við að leysa úr uppsöfnuðum fortíðarkröggum þess, kröggum sem er illgerlegt að greiða úr án skilnings þeirra og aðstoðar. Ríkisútvarpið á að veita stjórnmálamönnunum aðhald, ekki öfugt og þeir verða líka að virða það. Ríkisútvarpið er röddin okkar, allra.