

David Cameron átti ekki sérstaka sæludaga áður en hann kom til Íslands. Hann er nátturlega í forsvari fyrir hægri stjórn sem er í óða önn að skera niður breska velferðarkerfið og grafa undan heilbrigðisþjónustunni – svo megi einkavæða hana.
En Cameron lenti í smá hindrun þegar Lávarðadeildin felldi frumvarp um að skera niður skattaafslætti sem efnalítið fólk hefur notið. Þetta getur þýtt að fátækt fólk þarf að borga mun hærri skatta. Lávarðadeildin hafnaði þessu, jafnvel þótt Íhaldsmenn hafi haft uppi mikinn viðbúnað, eins og til dæmis að mæta með söngleikjahöfundinn Andrew Lloyd-Webber í þingsalinn, en hann hefur ekki sést þar síðan 2013.
Lávarðadeildin er að sönnu sérkennilegur staður þar sem fígúrur eins og Lloyd-Webber eiga ævilangt sæti. En nú er talað um að hafi myndast óvænt bandalag milli lávarðanna og Verkamannaflokksins – Cameron nefndi það einmitt í umræðu í þinginu áður en hann hélt til Reykjavíkur.
Í umræðunni sótti Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, hart að Cameron – spurði hann sömu spurningarinnar sex sinnum en Cameron gat ekki svarað. Sagt er að þetta sé í rauninni í fyrsta skipti sem Corbyn kemur höggi á Cameron í þinginu. Þeir eru heldur þungir David Cameron og George Osborne.