fbpx
Laugardagur 24.maí 2025
Eyjan

Ian McEwan: Að mæta hatri með hlátri

Egill Helgason
Laugardaginn 10. janúar 2015 18:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Breski rithöfundurinn Ian McEwan skrifar stutta en gagnorða grein í Guardian um morðárásina á Charlie Hebdo. Hann segir að hið róttæka íslam sé núorðið aðdráttarafl fyrir brjálæðinga víðs vegar í heiminum. Það hafi aldrei falið hatur sitt, hatur á menntun, umburðarlyndi, fjölmenningu, skemmtunum og framar öllu hatur á tjáningarfrelsi.

Frelsinu sem allt hitt byggir á.

Og það eru ekki bara hugmyndir sem íslamistarnir hata, heldur hata þeir líka og hika ekki við að drepa börn, skólastúlkur, samkynhneigða, konur, guðleysingja, þá sem eru ekki múslimar – og líka fjöldamarga múslima.

Nú bætist hið hugrakka og glaðværa starfsfólk Charlie Hebdo á þennan lista. Morðin í París eru harmleikur fyrir hið opna samfélag, segir McEwan.

Hann bendir þó á að á dimmri nótt fyrir andlegt frelsi, séu ljóstýrur. Fólk sem fór út á götur í Frakklandi og sýndi rósemi og stillingu, vonin um að þessi hryllilegu morð geti sameinað, sú staðreynd að slíkur haturssöfnuður byggir á veikum grunni og getur ekki enst lengi, jú, og sú staðreynd að brjálæðingarnir eiga við ofurefli að etja.

Ewan segir að þeir sem með myrkur í hjarta aðhyllist Pegida-hreyfinguna eða Front National og langi nú til að brenna moskur, skyldu hugleiða að áhrifaríkasta leiðin til að kúga eða myrða múslima sé að ganga í Isis eða einhver hliðarsamtök þess.

Eftir hið misheppnaða arabíska vor sé múslimaheimurinn í klemmu milli harðstjóra og trúarofstækis. Annars vegar Sisi hershöfðingi, hins vegar Isis. Þó megi greina ákveðna þróun sem vekur von, eins og til dæmis vefsvæði sem hafa sprottið upp meðal annars í Saudi-Arabíu og Egyptalandi  – þar birtist andstyggð á jihadistum og ofbeldi þeirra, höfnun á hinu pólitíska íslam eða jafnvel íslamstrú sjálfri.

Þeir sem halda úti slíkum vefsvæðum eru í mikilli hættu. Refsingin við því að hafna trúnni getur verið mjög vægðarlaus. Það sé einn stærsti gallinn við íslamstrú hversu erfitt sé að ganga af henni.

Ewan lýkur greininni með því að segja að eftir árásina á Charlie Hebdo þurfi að hefja á ný umræðu um tjáningarfrelsi. Það eigi að vera hægt að ræða málin á siðaðan hátt.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Forsætisráðherra: „Ekki á dagskrá“ að fara að vilja meirihluta þjóðarinnar

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Forsætisráðherra: „Ekki á dagskrá“ að fara að vilja meirihluta þjóðarinnar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Hljóðupptökur af Joe Biden „skekja Bandaríkin“

Hljóðupptökur af Joe Biden „skekja Bandaríkin“