Hluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins efast um ágæti þess að flokkurinn myndi þriggja flokka ríkisstjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, en DV greindi einnig frá slíkum efasemdum í lok nóvember. Þá var greint frá því að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hafi verið áhugasamur um slíkt samstarf en hann hafi mætt harðri andstöðu þingmanna sem hafa miklar efasemdir um uppboðsleið í sjávarútvegi sem og þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Morgunblaðið greinir frá því í dag að þrátt fyrir efasemdir þingmanna þá meti þeir það hins vegar sem svo að Bjarni hafi sem formaður óskorað umboð til að mynda slíka ríkisstjórn, sérstaklega í ljósi þess sem á undan hefur gengið.
Eining innan Bjartrar framtíðar
Formlegar viðræður flokkanna þriggja hafa staðið yfir alla þessa viku í kjölfar þess að Bjarni fékk umboð forseta Íslands til stjórnarmyndunar síðastliðinn föstudag. Hefur Bjarni talað um að vikan ætti líklega að nægja til að mynda ríkisstjórn og að hún ætti að geta tekið við þegar Alþingi kemur saman 24.janúar:
Við erum komin með allan ytri rammann að samstarfi og það eru ágætar líkur á að við getum lokið því en það eru samt mikilvæg atriði sem standa ennþá út af
sagði Bjarni við fréttamenn í gær að loknum fundi í Valhöll. Aðspurður um Evrópumálin og hvort þau væru erfið sagði Bjarni svo ekki vera:
Þau eru í sjálfu sér ekkert risamál í þessum viðræðum.
Einnig var haft eftir Björtu Ólafsdóttur þingmanni Bjartrar framtíðar að fullkomin eining sé innan flokksins og baklandinu um samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn. Viðræður flokkanna halda áfram í dag kl. 15.