Markús Sigurbjörnsson fráfarandi forseti Hæstaréttar og samdómarar hans hafa brotið gegn lagaskyldum sínum og misfarið með vald sitt. Þetta segir Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, í pistli á Pressunni í dag segir Jón Steinar að kalla þurfi dómarana til ábyrgðar því þjóðin þurfi ekki að una því að þeir gegni áfram embættum við æðsta dómstól hennar.
Jón Steinar segir að sem lögmaður og hæstaréttardómari hafi hann á undanförnum árum orðið vitni að vinnubrögðum sem hann telur óásættanleg:
Fráfarandi forsetinn, Markús Sigurbjörnsson, virðist hafa verið sá dómaranna sem langmest hafði umleikis á fjármálamarkaðinum á árunum fyrir hrunið mikla.
Hann var hluthafi í Glitni banka hf., án þess að vitneskja um það lægi fyrir. Í nóvember 2006 sat hann í þremur samkynja málum gegn bankanum, sem var sýknaður í öllum tilvikum.
Hann staðhæfir að hafa fengið skriflegt leyfi nefndar um dómarastörf til þess að mega eiga hlutabréf sín. Enn hefur hann ekki framvísað samþykkisbréfinu,
segir Jón Steinar. Telur hann að Íslendingar geti ekki setið þegjandi hjá þegar fram koma nýjar upplýsingar um tilvik á þann hátt sem nú hefur orðið:
„Fráfarandi forsetinn segist hafa uppfyllt lagaskyldu sína með bréfi til nefndar um dómarastörf. Því var ekki svarað. Þáverandi formaður hennar, vinur Markúsar og náinn samstarfsmaður, hefur síðan upplýst að hjá nefndinni hafi þögn verið sama og samþykki!
Slík vinnubrögð hafa auðvitað ekkert gildi við meðferð mála í stjórnsýslu, auk þess sem þessi maður gat ekki átt þátt í að afgreiða þetta erindi frá vini sínum. Ekki verður betur séð en frásögn af hinu skriflega svari sé ósönn.
Auk þess hlýtur umsækjandi leyfisins að hafa gert sér grein fyrir að ekkert gilt svar lá fyrir um heimild hans til að eiga bréfin, jafnvel þó að vinur hans kunni að hafa sagt honum að það væri í lagi. Annað hvort bar honum að inna nefndina eftir gildu svari eða losa sig við þessi bréf. Hann gerði hvorugt og braut því gegn reglunum.“
„Ástæða þagnarinnar hefur einfaldlega verið ótti við vald dómaranna við réttinn“
Jón Steinar segist hafa heyrt því fleygt fram að varhugavert sé að treysta hans skoðunum í þessum efnum þar sem honum sé í nöp við Markús, Jón Steinar segir vissulega að hann sé ekki í sérstöku uppáhaldi hjá sér en ástæðan sé fyrst og fremst vinnubrögð Markúsar, sem og annarra dómara, sem Jón hefur verið afar ósáttur við. Hann segir samfélag lögmanna og annarra lögfræðinga hafi þagað þunnu hljóði um misgjörðir sem þeir hafa orðið vitni af:
Ástæða þagnarinnar hefur einfaldlega verið ótti við vald dómaranna við réttinn.
Málflutningsmenn hafa óttast að þeir, eða öllu heldur skjólstæðingar þeirra, yrðu látnir líða fyrir gagnrýni á sýslan réttarins, auk þess sem enginn sem gagnrýnt hefur dómarana, hefur getað vænst frama innan dómskerfisins, svo valdamiklir sem þeir hafa illu heilli einnig verið á því sviði.
Ætluð vinátta við kunna gagnrýnendur hefur meira að segja staðið framavonum einstakra manna fyrir þrifum, þannig að þeir hafa þurft að binda endi þar á til að hljóta brautargengi.
Þetta er auðvitað alveg hrikalegt ástand og með öllu óásættanlegt.
Hann segir að Alþingi þurfi að huga að aðgerðum til að endurvekja traust á Hæstarétti:
Réttast væri að hefja þær með því að afla upplýsinga um fjármálaumsvif þeirra í öllum bönkunum þremur fyrir hrun. Síðan þarf að skoða í hvaða dómsmálum einstakir dómarar hafa setið til að unnt verði að gera sér grein fyrir vanhæfi þeirra.
Í grófustu tilvikunum á þjóðin alls ekki að þurfa að una því að viðkomandi dómarar gegni áfram embættum við æðsta dómstól þjóðarinnar. Biðjist þeir ekki sjálfir lausnar ætti innanríkisráðherra að huga alvarlega að því að höfða mál á hendur þeim til embættismissis.