Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata býr á stúdentagörðum þrátt fyrir að hann sé með rúmlega 1,3 milljón krónur í laun á mánuði. Jón Þór segir í samtali við Fréttablaðið í dag að eiginkona hans sé að leigja íbúðina en hún stundar nám við Háskóla Íslands:
Það er konan mín sem leigir íbúðina en ekki ég. Það er hluti af hennar öryggi að hafa stúdentaíbúð og ekki hægt að spyrða það við manninn hennar,
segir Jón Þór. Segir hann að það væri óeðlilegt ef starf hans myndi skerða rétt maka hans til búsetu:
Þetta er hennar réttur og í raun partur af stærri umræðu. Eiga réttindi fólks að tengjast eða skerðast út af maka þínum? Fólk verður að geta verið sjálfstætt þótt það eigi maka.
Málið er komið inn á borð hjá Stúdentaráði og verður þar til umræðu á næstu fundum.