Óli Björn Kárason, þingmaður, og Arnar Sigurðsson, vínkaupmaður, hljóta frelsisverðlaun Sambands Ungra Sjálfstæðismanna árið 2017. Afhending verðlaunanna, sem kennd eru við Kjartan Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, fer fram í höfuðstöðvum flokksins í Valhöll klukkan 17:00 í dag. Þetta er í ellefta sinn sem verðlaunin eru veitt.
Í yfirlýsingu SUS segir:
Frelsisverðlaunin eru afhent ár hvert til þeirra sem hafa aukið veg frelsishugsjónarinnar á Íslandi. Stjórn SUS vill með þessu þakka fyrir óeigingjarnt starf þeirra og hvetja til frekari dáða.
Óli Björn fær verðlaunin fyrir að hafa verið „talsmaður frelsis á Íslandi í ræðu og riti síðustu áratugi“. Hann hefur starfað lengi í bókaútgáfu og hjá fjölmiðlum. Hann hefur meðal annars ritstýrt miðlum á borð við DV, Viðskiptablaðinu og Amx.is og gefið út bækur.
Arnar rekur víninnflutningsfyrirtækið Sante ehf og „hefur lengi talað fyrir auknu frelsi í viðskiptum og verslun“. Hann hefur barist gegn ríkiseinokun og höfðaði nýverið mál gegn íslenska ríkinu þar sem þess var krafist að reglugerð um framleiðslu, innflutning og heildsölu áfengis í atvinnuskyni yrði gerð dæmd ógild.
Þetta er í ellefta sinn sem verðlaunin eru veitt. Meðal fyrri verðlaunahafa má nefna Andra Snæ Magnason, Margréti Pálu Ólafsdóttur, Brynjar Níelsson og Hannes Hólmstein Gissurarson.