Bandalag háskólamanna sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem lýst er yfir þungum áhyggjum vegna stöðu kjaraviðræðna aðildarfélaga bandalagsins við ríkið. Lesa má yfirlýsinguna hér að neðan:
Komið verði til móts við réttmætar og sanngjarnar kröfur félaganna
Í tilefni af fundi stjórnvalda með aðilum vinnumarkaðarins, sem haldinn er í dag, 29. desember, vill BHM koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri.
BHM lýsir þungum áhyggjum af stöðu kjaraviðræðna sautján aðildarfélaga bandalagsins við ríkið. Samningar félaganna hafa verið lausir í fjóra mánuði eða allt frá því að gildistími gerðardóms frá árinu 2015 rann út í lok ágúst. Lítið hefur þó miðað í viðræðunum og eitt félag, Félag íslenskra náttúrufræðinga (FÍN), hefur vísað kjaradeilu sinni við ríkið til ríkissáttasemjara.
Mikilvægt er að komið verði til móts við réttmætar og sanngjarnar kröfur félaganna um að menntun verði metin til launa. Hækka þarf laun á mörgum ríkisstofnunum þar sem launasetning félagsmanna er óeðlilega lág og í engu samræmi við menntun þeirra, reynslu og ábyrgð. Einnig leggur BHM áherslu á að tryggt verði að launaþróun félagsmanna verði í samræmi við launaþróun viðmiðunarhópa. Þá þarf að bæta starfsumhverfi á mörgum stofnunum en því er víða mjög ábótavant. Enn fremur bendir BHM á að á næstunni munu stórir hópar háskólamenntaðra sérfræðinga hjá ríkinu fara á eftirlaun, t.a.m. innan heilbrigðis- og menntakerfisins. Vandséð er að hægt verði að fylla í skörðin nema laun og starfsaðstæður á viðkomandi stofnunum verði bætt verulega. Að mati BHM vekur fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2018 ekki vonir um að gerðar verði nauðsynlegar úrbætur í þessu tilliti.
Loks áréttar BHM að innan bandalagsins eru fjölmennir hópar kvenna sem hafa mjög lág laun miðað við menntunarstig. Hér er meðal annars átt fagstéttir sem starfa í heilbrigðis- og menntageiranum. Verðmæti þeirrar menntunar sem þessar stéttir hafa aflað sér endurspeglast alls ekki í launasetningu þeirra. Brýnt er að endurmeta laun þessara sérfræðinga og taka tillit til þeirrar menntunar sem þeir hafa aflað sér.