
Samkvæmt nýlegri skýrslu GRECO, nefnd samtaka Evrópuráðsins gegn spillingu, þarf að styrkja hagsmunaskráningu þingmanna á Íslandi og fylgja henni betur eftir. Í skýrslunni, sem er frá 6. desember, er sagt að stjórnvöld á Íslandi hafi fylgt eftir fimm af 10 tilmælum nefndarinnar frá því 2013, brugðist hafi verið við þremur tilmælum að hluta, en tvenn tilmæli hafi ekki verið uppfyllt. Brýnt sé að vinna umbótum á hagsmunaskráningu þingmanna, sem sé mikilvægt til að koma í veg fyrir spillingu.
Hafa skal í huga að þingsetning var 14. desember og nær efni skýrslunnar því ekki yfir nýja þingmenn frá síðustu kosningum. Þá hefur forsætisráðherra lagt til að starfshópur endurskoði siðareglur og hagsmunaskráningu ráðherra, þingmanna og starfsmanna stjórnarráðsins.
Þingmenn hafa mánuð til að klára hagsmunaskráningu frá þingsetningu, sem gefur þeim frest til 14. janúar. Aðeins fimm þingmenn af 63 eiga eftir að klára hagsmunaskráninguna samkvæmt vef Alþingis, allt nýliðar. Þeir eru Bergþór Ólason, varaformaður Miðflokksins, Birgir Þórarinsson, Miðflokki, Ólafur Ísleifsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, Karl Gauti Hjaltason, varaformaður Flokks fólksins og Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins.
Í samtali við Eyjuna kváðust þingmennirnir fimm allir ætla að ljúka við skráninguna fyrir tilsettan tíma. Einn þakkaði áminninguna, sumir báru við kæruleysi og aðrir tímaleysi.