
Gistinætur á hótelum í nóvember síðastliðnum voru 304.000, sem er sami fjöldi og í nóvember í fyrra. Um 69% allra gistinátta voru á höfuðborgar-svæðinu eða 210.000, sem er 4% fækkun frá fyrra ári. Nokkur fjölgun varð á gistinóttum frá nóvember fyrra árs á Norðurlandi (15%), Suðurnesjum (12%) og Suðurlandi (10%). Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.
Um 89% gistinátta voru skráðar á erlenda ferðamenn, en erlendum gistinóttum fækkaði um 1% frá nóvember í fyrra meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 7%. Bretar gistu flestar nætur (86.500), síðan Bandaríkjamenn (74.900) og Þjóðverjar (11.900), en gistinætur Íslendinga voru 33.800.
Á tólf mánaða tímabili, frá desember 2016 til nóvember 2017, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.251.000 sem er 13% aukning miðað við sama tímabil árið áður.
Athygli skal vakin á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.
Tölur fyrir 2017 eru bráðabirgðatölur. Um þessar mundir fer fram vinna við endurskoðun á skiptingu gistinátta eftir þjóðerni ferðamanna. Þessi vinna hefur ekki áhrif á heildarfjölda gistinátta en gæti haft áhrif á hlutfall milli erlendra og innlendra ferðamanna. Stefnt er að því að ljúka þessari vinnu fyrir útgáfu endanlegra talna fyrir gistinætur á öllum tegundum gististaða fyrir árið 2017.