
Í ævisögu sinni, Minn tími, minnist Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi forsætisráðherra, á samskipti sín við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þáverandi formann Framsóknarflokksins er hún tók við forsætisráðuneytinu af Geir H. Haarde í ársbyrjun 2009. Sigmundur hafði heitið því að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og VG falli en sú afstaða Sigmundar átti eftir að breytast eins og Jóhanna minnist á í bók sinni. Hún segir samskiptin við Sigmund hafa verið erfið ekki síst vegna fjarveru hans.
„Það olli líka erfiðleikum í samskiptum við Sigmund Davíð að erfitt var að fá fram niðurstöður eða ákvörðun í stórum málum sem við þurftum að semja um sérstaklega við þinglok fyrir jól og lok hvers þings. Það var ekki sjaldan þegar komið var að ákvörðun að Sigmundur lét sig hverfa með þeirri skýringu að hann þyrfti aðeins að skreppa fram, en svo sást hann ekki meira. Og boða þurfti til nýs fundar til að ná fram niðurstöðu í mál. Svo var þekkt hve seint og illa hann mætti á fundi.“
Fjarvera Sigmundar Davíðs á Alþingi rötuðu í fréttir á árinu, en fjarvera hans á síðasta þingi þótti nokkuð áberandi. Hinsvegar er batnandi mönnum best að lifa, því Sigmundur hefur mætt í allar nema eina atkvæðagreiðslur yfirstandandi þings, sem eru fimm talsins frá 15. desember.