
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gerir grín að stjórnarsáttmálanum á Facebooksíðu sinni í dag. Hann hefur sjálfur föndrað rafrænt skjal, sem dregur dár af hinum eina sanna stjórnarsáttmála. Hann segir sáttmálann hvorki fugl né fisk, sé hið mesta skemmtiefni og sé tilvalinn til lestrar meðan beðið er eftir fjárlagafrumvarpinu.
„Það eru víst enn um 10 dagar í að við fáum að sjá fjárlagafrumvarpið. Hvað er hægt að gera í millitíðinni? Til dæmis lesa stjórnarsáttmálann nokkrum sinnum. Ég veit að hann er dálítið langur og ekki endilega mjög skemmtilegur. Hér er hins vegar að finna stytta og mjög aðgengilega útgáfu stjórnarsáttmálans ásamt skýringum. Gagnlegt skjal sem gott verður að hafa við höndina í vetur.“
Meðal annars segir í Sigmundarsáttmálanum:
Stuðningur við þingið verður aukinn á einhvern hátt og séð til þess að þingmenn stjórnarandstöðu þurfi að taka þátt í sem flestum nefndum um alls konar málefni sem nauðsynlegt verður að svæfa á kjörtímabilinu. Þannig dreifist ábyrgð á aðgerðarleysi jafnar milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Með þessu móti skiptir minna máli hvaða flokkar skipa stjórn og stjórnarandstöðu á hverjum tíma og þar með hvaða flokka fólk kýs.
Um heilbrigðisþjónustuna segir Sigmundur:
Gerðar verða áætlanir um góða heilbrigðisþjónustu og heilsugæslan efld. Þótt megnið af húsnæði Landspítalans sé ónýtt verður tryggt að húsnæðið nýtist áfram. Það verður gert með því að byggja stóran gráan steinsteypukassa sem tengdur verður við gömlu húsin. Með því að setja gríðarlega mikla peninga í þá fjárfestingu má koma í veg fyrir að byggður verði nýr spítali á nýjum stað. Þar með hefur fólk ekki lengur ástæðu til að kvarta yfir myglu í húsaþyrpingunni við Hringbraut og sjúklingar og starfsfólk munu ekki geta farið annað.
Sigmundarsáttmálann má lesa í heild sinni hér.