
Björn Bjarnason, fyrrum þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, segir umræðuna um borgarlínuna „hallærislega“ og vitnar þar sérstaklega í leiðara Fréttablaðsins í dag, eftir Kristínu Þorsteinsdóttur ritstjóra, sem hann segir „nöldur í garð Sjálfstæðisflokksins og tilraun til að niðurlægja hann vegna fyrirhugaðs leiðtogakjörs innan flokksins um borgarstjóraefni.“
Segir Björn að fáir þurfi að undrast minnkandi áhuga fólks á þátttöku í stjórnmálum, þegar skrifað er um stjórnmál á eftirfarandi hátt, sem hann segir hámark hneykslunar aðaðritstjórans:
„Fortíðardraugur úr borginni, Björn Bjarnason, stakk meira að segja upp á því að Framsóknarmaðurinn Frosti Sigurjónsson yrði dreginn á flot.“ (Úr leiðara Fréttablaðsins)
Um þetta segir Björn einnig:
„Vandi Reykvíkinga er einmitt sá að til forystu hefur valist fólk sem hefur ekki vald á að stjórna borginni: skuldir eru hærri en skiljanlegt er, sorphirða er léleg, vandræði við rekstur leikskóla og grunnskóla, húsnæðislausum fjölgar, skömmtun á byggingarlóðum, mengunarmál úr böndum, húsakostur orkuveitu í molum, öfgastefna í umferðarmálum o.s.frv, o.s.frv – svo að ekki sé minnst á borgarlínuna.“
Björn segir ennfremur að niðurstaða ritsjórans sé sú að borgarbúar vilji halda áfram á sömu braut:
“…kröfurnar eru engar og aðhaldið ekkert. Niðurlægingu höfuðborgarinnar er fagnað af því að hún er talin koma Sjálfstæðisflokknum illa þótt hann beri ekki ábyrgð á henni. Þótt borgarlína verði til umræðu fyrir kosningar í vor er ólíklegt að nokkuð gerist vegna hennar á næsta kjörtímabili. Minni á að fyrir kosningar árið 2002 var mikið rætt um Sundabraut – hvar er hún 2018? Eða lokun Reykjavíkurflugvallar sem einnig var hitamál árið 2002? Borgarlína kann að vera smjörklípa yfirvalda til að draga athygli frá stóra vandanum í Reykjavík, stjórnleysinu.“