
Dómnefnd sem meta á hæfni umsækjenda um embætti átta héraðsdómara, hefur svarað bréfi setts dómsmálaráðherra, Guðlaugs Þórs Þórssonar, þar sem nefndin segist ekki lúta boðvaldi ráðherra, heldur sé hún sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Á mannamáli þýðir þetta einfaldlega: „skiptu þér ekki af okkur, þú ræður ekki yfir okkur.“
Í bréfi dómsmálaráðherra til nefndarinnar voru tíu spurningar um forsendur mats og málsmeðferð nefndarinnar, sem ráðherra taldi nauðsynlegt að fá svör við. Guðlaugur Þór fer með málið vegna vanhæfi Sigríðar Á. Andersen, en einn umsækjenda um stöðu héraðsdómara er Ástráður Haraldson hæstaréttarlögmaður, sem Sigríður braut gegn í Landsréttarmálinu.
Til dæmis gerði ráðherra athugasemd við það í bréfi sínu, af hverju nefndin notaðist ekki við stigatöflu til að flokka umsækjendur, líkt og gert hefði verið við Landsrétt. Í svari sínu sagðist hæfnisnefndin notast við mismunandi samlagningartæki, eins og Excel forritið, sem ráðist af fjölda umsækjenda og samsetningu þeirra. Auk þess hafi slíkt ekki tíðkast fyrr en í Landsréttarmálinu. Þá segist hæfnisnefndin ekki ætla að afhenda þau vinnuskjöl sem hún notaðist við.
Ráðherra fann einnig að því í störfum hæfnisnefndarinnar, að ekki sé rökstutt sérstaklega í umsögninni á grundvelli heildarmats hvers vegna þeir umsækjendur sem metnir voru hæfastir eru taldir bera af umfram aðra. Í svari hæfnisnefndarinnar segir að hún viti ekki hvað ráðherra eigi við, það komi skýrt fram hvaða þættir voru metnir og útkoma umsækjenda í hverjum þætti ferlisins.
Hæfnisnefndin segist varin lögum varðandi ákvörðunartöku um hæfni umsækjenda og að ekki verði frekar fjallað um umsækjendur umfram það sem sagt er í umsögn hennar. Vísar nefndin til dóms Hæstaréttar í Landsréttarmálinu, þar sem segir að lagasetning um dómnefndina hafi það að markmiði að styrkja sjálfstæði dómstóla og auka traust almennings á því að dómarar væru óháðir valdhöfum framkvæmdavaldsins.