Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, segir í pistli á heimasíðu sinni að samstarf Sjálfstæðisflokksins við VG muni hafa þau áhrif að Sjálfstæðisflokkurinn færist nær miðju, „þangað sem hann sjálfviljugur hefur ekki viljað leita.” Hann segir það þó geta eflt flokkinn, án þess að skýra það nánar.
Styrmir hefur verið talsmaður þess að færa Sjálfstæðisflokkinn frá þeirri frjálshyggjustefnu sem flokkurinn tók undir forystu Davíðs Oddsonar, ekki síst eftir efnahagshrunið. Í bók sinni uppreisnarmenn frjálshyggjunnar-Byltingin sem aldrei varð, rekur Styrmir sögu Eimreiðarhópsins svokallaða sem öðrum fremur bar ábyrgð á þeirri frjálshyggjustefnu sem flokkurinn tók upp að fullum krafti með Davíð Oddson í farabroddi og fram að ársbyrjun 2009, þegar sú stefna féll með bankahruninu. Styrmir telur í bókinni að uppgjör innan Sjálfstæðisflokksins varðandi hrunið hafi enn ekki farið fram og vill að flokkurinn endurhugsi og endurnýji stefnu sína í takt við breytta tíma.
Í pistli sínum nefnir Styrmir að bilið milli VG og Samfylkingar sé að breikka:
„Fyrir nokkrum misserum var erfitt að sjá hvers vegna fólk í þessum tveimur flokkum gekk ekki til samstarfs í einum flokki. Nú bendir allt til þess að tónninn í samskiptum þessara tveggja flokka fari síharðnandi. Það er að sjálfsögðu óskastaða fyrir Sjálfstæðisflokkinn – að þrífast á sundurlyndi vinstri manna.“
Hvort Styrmir vill að Sjálfstæðisflokkurinn fylli að einhverju leyti það hugmyndafræðilega tómarúm sem hann telur vera milli VG og Samfylkingar skal ósagt látið, en hugmyndir Styrmis um að Sjálfstæðisflokkurinn færi sig nær miðju á hinum pólitíska ás eiga líklega ekki upp á pallborðið hjá forystu flokksins, nema það skili þeim 30-35 prósenta fylgi að nýju, sem verður að teljast ólíklegt með átta flokka á þingi.