fbpx
Þriðjudagur 08.júlí 2025
Fréttir

Valdimar: „Mig dreymdi að ég væri dáinn“

Ætlar að hlaupa tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 11. maí 2016 09:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mig dreymdi að ég væri dáinn og það var sparkið sem ég þurfti til að byrja að gera eitthvað í mínum málum og minni heilsu,“ segir Valdimar Guðmundsson tónlistarmaður. Valdimar ætlar að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ágúst og fara tíu kílómetra.

Þetta segir Valdimar í myndbandi sem birt er á vefnum Mín áskorun.

Valdimar segir að martröðin um eigin dauða hafi orðið til þess að hann ákvað að skera upp herör gegn ofþyngd sinni, kæfisvefni og almennt versnandi heilsu.

Fer 10 kílómetra

„Nú er ég búinn að taka þá ákvörðun að vera með í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ágúst. Ég ætla að koma mér í nógu gott form til að fara 10 kílómetra, en ég hleyp kannski ekki allan tímann. En það er allt í lagi að labba líka, þetta er meira en einhver íþróttakeppni, þetta er stærsta fjáröflun landsins. Ég ætla að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Það er mín áskorun,“ segir Valdimar í myndbandinu.

„Ég ætla að koma mér í nógu gott form til að fara 10 kílómetra, en ég hleyp kannski ekki allan tímann.“

Tjáði sig um vandann

Valdimar vakti mikla athygli í október síðastliðnum þegar hann tjáði sig á opinskáan hátt um offituvanda sinn og slæma heilsu í færslu á Facebook. Þar sagðist hann þrá að geta keypt sér föt í venjulegum verslunum, geta hlaupið og verða eftirsóknarverður í augum kvenna.

„Ég áttaði mig á því hversu alvarlegur minn heilsuvandi er og að hann verður bara risa-fokking-stór ef ekkert verður gert. Ég sem sagt sofnaði með mjög stíflaðar nasir og sú nótt var skelfileg. Mig dreymdi alla nóttina að ég gæti ekki andað, það var vegna þess að ég þjáist líka af kæfisvefni og súrefnisinntaka mín þessa nóttina var mjög lítil,“ sagði Valdimar í færslunni.

„Ég hugsaði að ef ég hefði sofið fastar þá hefði ég hreinlega getað drepið mig óvart í svefni. Það er sem sagt núna eða aldrei. Ég þarf að hugsa um framtíðina. Ég þarf að vita að ég munu ekki enda einn í kjallaraíbúð og deyja fyrir aldur fram. Ég þarf að geta fúnkerað í nútímasamfélagi sem einstaklingur,“ bætti hann við.

„Ég vil ekki þurfa að kvíða því í hvert skipti sem ég fer í bíó eða sest í stól af einhverju tagi að hann sé ekki nógu stór eða nógu sterkur. Ég þarf að fara í flug og ekki þurfa að vonast til að sætið við hliðina sé laust svo ég sé ekki að angra greyið manneskjuna sem þarf að sitja við hliðina á mér. Ég þarf að geta hlaupið, punktur.“

Og það er nákvæmlega það sem Valdimar hefur sett markið á eins og hann lýsir á einlægan hátt í myndbandinu sem sjá má neðst í fréttinni.

Hér má sjá brot úr viðtali við Valdimar í Kastljósi:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt