fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024

Óhreinu börnin hennar Betu

Breska grime-tónlistin stefnir á heimsyfirráð – Félagsíbúðir, íþróttagallar og ofbeldi

Kristján Guðjónsson
Laugardaginn 5. mars 2016 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hin breska „Grime-tónlist“ virðist stefna hraðbyri á heimsyfirráð. Bresku tónlistarverðlaunin hafa hunsað senuna, tónlistarmiðlar hafa baktalað hana og lögreglan reynt að stöðva hana – en eftir fimmtán ár á jaðrinum virðist þessi skítugi frændi hip-hopsins loks ætla að slá í gegn utan Bretlandseyja. Stærstu rappstjörnurnar handan Atlantshafsins keppast við að hæla henni og reyna hvað þeir geta til að tengja sig henni. DV kynnti sér grime-ið, óhreinu börn Bretadrottningar.

Wot U Call It? Igloo með Wiley er eitt fyrsta hreinræktaða grime-lagið. Hér rappar Wiley sjálfur yfir hljóðrásina og gerir grín af þeim sem velta vöngum yfir því hvernig þeir geti flokkað þessa nýju tónlist.

Sjóræningjaútvarp í félagsíbúðum

Sama kvöld og tónlistaráhugamenn hneyksluðust yfir taktleysi bresku tónlistarverðlaunanna (BRIT) – sem tilnefndu ekki einn grime-listamann fyrir árið sem stefnan sló í gegn um allan heim – tilkynnti ein stærsta poppstjarna heims, Drake, að hann hefði skrifað undir plötusamning við örlitla breska plötuútgáfu, BBK, útgáfuarm grime-gengisins Boy Better Know. Þegar ein heitasta poppstjarna heims vill nudda sér upp við örútgáfu til að smitast af svalleika er ljóst að hún er það sem koma skal.

Grime er ákveðinn stíll og fagurfræði sem þróaðist í fátækum innhverfum og fjölmenningarlegum félagsíbúðum Lundúna í upphafi árþúsundarins. „London er blanda af svo mörgum ólíkum menningarheimum – aðeins þannig gat grime orðið til,“ sagði Skepta, einn helsti drifkraftur senunnar í meira en áratug, á dögunum.

Hraðinn var í kringum 140 taktar á mínútu svo MC-arnir þurftu að hafa sig alla við til að ná að kasta út úr sér orðum í takt við tónlistina

Þessi gerð tónlistar fæddist á ólöglegum sjóræningja-útvarpsstöðvum sem voru starfræktar í Austur-London og víðar. Heimagerð stúdíó voru sett upp í eldhúsinu og senditæki fest í leyni á topp íbúðarblokka. Þar létu „MC-ar“ dæluna ganga yfir Jungle, Drum and bass, afrókarabískt Dancehall og umfram allt UK Garage-tónlist.

Harður taktur og hraði

Smám saman þróaðist sérstakur stíll. Tónlistin var myrk og hörð, bassinn djúpur og taktarnir brotnir. Hraðinn var í kringum 140 taktar á mínútu svo MC-arnir þurftu að hafa sig alla við til að ná að kasta út úr sér orðum í takt við tónlistina og notuðust þess vegna við stutt orð, einfalt rím og endurtekningar.

Fyrsta stjarnan Dizzee Rascal var ekki orðinn tvítugur þegar hann sló í gegn með plötunni Boy in da Corner.

Oftar en ekki var MC-unum att saman, svo þeir skiptust á að ríma yfir textann, hluti af leiknum fólst í að blása upp eigið egó, gera lítið úr andstæðingnum og nota svæðisbundið götuslangur til að hóta ýmiss konar líkamsmeiðingum. „Þetta er í erfðaefni MC-sins – við komum úr bardagamenningu,“ sagði Kano, einn af goðsögnum grime-sins nýlega í viðtali.
Þótt grime geti vissulega hljómað eins og afbrigði af hip-hopi þá virðast listamennirnir ekki síður sjá sig sem afkomanda hinna ýmsu stíla raftónlistar og afrókarabískrar tónlistar.

En slíkar skilgreiningar skipta kannski minnstu máli: „I don‘t care about your –isms and schisms,“ spýtir Skepta út úr sér í einu lagi.

Grime-goðsagnirnar Dizzee Rascal og Wiley í Bethnal Green í Austur-London árið 2002.
Frumkvöðlarnir Grime-goðsagnirnar Dizzee Rascal og Wiley í Bethnal Green í Austur-London árið 2002.

Ofbeldi og árásargirni

Pow Forward með Lethal Bizzle.

Upp úr aldamótum fór stíllinn að skera sig frá UK Garage-tónlistinni og reynt var að klína nokkrum nöfnum á senuna: sublow, 8-bar eða eskibeat. Að lokum festist þó nafnið grime, en orðið þýðir skítur, óhreinindi, botnfall eða dreggjar, sem fangar stemningu og fagurfræði tónlistarinnar nokkuð vel.

Öllum að óvörum náðu nokkrir listamenn inn í breska meginstrauminn upp úr 2000, kannski fyrst og fremst Dizzee Rascal, Wiley og Kano. Táningurinn Dizzee Rascal varð gríðarvinsæll fyrir plötuna Boy in Da Corner og hlaut Mercury-verðlaunin fyrir. Dizzee varð fyrsta alþjóðlega rappstjarnan frá Englandi og breska tónlistarpressan missti sig. Áhuginn á stefnunni reyndist þó skammlífur og náði aldrei almennilega út fyrir Bretlandseyjar – svæðisbundið slangrið og hreimurinn var sagður standa í vegi fyrir frekari vinsældum vestanhafs.

Tónlistin var vissulega ágeng enda fæddist hún í hverfum sem eru afskipt af yfirvöldum nema þegar lögreglan sér ástæðu til að stoppa og leita á ungum svörtum karlmönnum af engri sýnilegri ástæðu

Í breskum fjölmiðlum varð grime hins vegar smám saman að samheiti fyrir ofbeldi, vegna nokkurra ofbeldisatvika á tónleikum, auk þess sem grime-listamaðurinn Crazy Titch var dæmdur fyrir morð. Blaðamenn tengdu ofbeldið ekki aðeins við það úr hvaða jarðvegi hún spratt – úr fátækum hverfum þar sem ofbeldi var mikið – heldur einnig við tónlistina sjálfa. „Grime er í eðli sínu tónlist innilokunarkenndar og reiði,“ skrifaði Ned Beauman í The Guardian árið 2006.
Næturklúbbar bönnuðu tiltekin grime-lög, eins og Forward (Pow) með Lethal Bizzle, vegna þess að slagsmál voru sögð hefjast í hvert skipti sem lagið var spilað.

Tónlistin var vissulega ágeng, bæði takturinn og umfjöllunarefnin, enda fæddist hún í hverfum sem eru afskipt af yfirvöldum nema þegar lögreglan sér ástæðu til að stoppa og leita á ungum svörtum karlmönnum af engri sýnilegri ástæðu, í hverfum þar sem tækifæri til tjáningar og framtíðar eru takmörkuð.

Lögreglan gegn grime-inu

Lögreglan hefur hins vegar notað slagsmál á tónleikum sem átyllu til að koma ítrekað í veg fyrir grime-kvöld – vegna nafnlausra ábendinga um mögulegt ofbeldi. Þá hefur tónleikahöldurum verið gert erfitt fyrir með hinu alræmda eyðublaði 696 sem þarf að skila til yfirvalda tveimur vikum fyrir alla viðburði. Á eyðublaðinu er ekki aðeins beðið um full nöfn og bakgrunnsupplýsingar allra sem taka þátt í viðburðinum heldur var allt til ársins 2008 beðið um upplýsingar um aldur og kynþátt þeirra sem líklegastir væru til að mæta á viðburðinn.

Lady Leshurr Lady Leshurr „freestyle“-ar.

Það kemur kannski ekki á óvart að grime-viðburðir, sem voru að mestu leyti sóttir af ungum svörtum Bretum, skyldi ítrekað verið neitað um leyfi. Því er ekki furða að grime-senan skilgreini sig oft í andstöðu við valdastofnanir og ríki. Og þó að textarnir hafi hingað til ekki látið sig heimsmálin varða er harkan og reiðin sem brýst út í listsköpuninni hápólitísk.

Tónlistin er innlegg í umræður um tilhneigingu lögreglunnar til að stöðva unga svarta karlmenn og leita á þeim án nokkurrar ástæðu. Hitinn í þeim málum náði hámarki árið 2011 þegar ungur svartur maður, Mark Duggan, var skotinn af Lundúnalögreglunni og mikil mótmæli spruttu upp í kjölfarið – en hinn myrti var nátengdur ýmsum grime-stjörnum.

Hancox hefur talað um að grime stefni í að verða mikilvægasta mótmælatónlist ársins 2016.

Þegar alþjóðlegi slagarinn Shutdown með Skepta er skoðaður liggja allar þessar víddir undir: myndbandið tekið upp í Barbican þar sem lögregla kom í veg fyrir stóra grime-tónleika án þess að gefa upp ástæðu. Þegar myndbandið var frumsýnt hélt Skepta ólöglega tónleika á bílastæði í Shoreditch-hverfinu í Austur-London og fékk tvö þúsund tónleikagesti til að hrópa „Fuck the Police“ áður en hann lék lagið. Menningarblaðamaðurinn Dan Hancox hefur jafnvel talað um að grime stefni í að verða mikilvægasta mótmælatónlist ársins 2016.

Alþjóðlegur slagari Skepta hefur slegið í gegn með laginu Shutdown.

Gerðu-það-sjálfur

Vegna áhugaleysis fjölmiðla og hins alræmda orðspors var grime-senan grafin neðanjarðar í heilan áratug en þar hefur hún þroskast og slípast til. Þar hefur skapast sterkt gerðu-það-sjálfur viðhorf þar sem stór útgáfufyrirtæki eru litin hornauga og tilraunir til að hljóma amerískur álitnar hjákátlegar. Útlitslega eru grime-listamennirnir naumhyggjulegri en glysgjarnir rapparar í Bandaríkjunum, stórir hópar svartklæddra ungmenna, einfaldir íþróttagallar og derhúfur eru einkennisklæðnaðurinn. „I don’t wear no bait designer brands, I spit deep bars in my black top,“ rappar JME.

Haltu kjafti Nýstirnið Stormzy hefur sent frá sér röð einfaldra myndbanda þar sem hann „freestyle-ar“ með vinum sínum úti á götu.

Frekar en hefðbundnar boðleiðir tónlistarbransans er það internetið með öllum sínum Youtúbum, Soundkládum og spjallborðum sem er ábyrgt fyrir því að breiða út boðskapinn að undanförnu. Bræðurnir Skepta og JME, sem hafa verið einhverjir helstu drifkraftar senunnar í áratug, eru loksins að njóta árangurs erfiðisins með lögum á borð við Shutdown, #Thatsnotme og Man Don‘t Care. Yngri rapparar á borð við Stormzy, Krept & Konan, Lady Leshurr og Novelist eru einnig farnir að vekja athygli beggja vegna Atlantshafsins.

Í fyrsta skipti virðist Bretland ætla að hafa afgerandi áhrif á rappheiminn.

Hefðbundnar stofnanir bresks tónlistarlífs hafa hins vegar verið vandræðalega lengi að taka við sér. Það þurfti sjálfan Kanye West til að koma grime-listamönnum upp á svið bresku tónlistarverðlaunanna í fyrra. Þá fékk hann Skepta til að taka stóran hóp svartklæddra grime-listamanna með sér upp á svið. Á verðlaununum í febrúar þar sem verðlaunað var fyrir árið 2015 – árið sem hefur verið nefnt ár grime–sins – hlutu listamennirnir engar viðurkenningar.

En viðurkenningin kom sama kvöld þegar tilkynnt var að Kanadamaðurinn Drake, ein stærsta poppstjarna heims um þessar mundir, hefði skrifað undir útgáfusamning við Boy Better Know, örútgáfu í eigu Skepta og JME.
Fyrir utan þessa tvo risa hafa bandarískir rapparar á borð við A$AP Rocky og Wiz Khalifa sýnt senunni áhuga og talað um þá sem áhrifavalda. Í fyrsta skipti virðist Bretland ætla að hafa afgerandi áhrif á rappheiminn.

Kanye West fékk þrjátíu grime-listamenn með sér upp á svið á bresku tónlistarverðlaununum í fyrra.
Upphefðin kemur að utan Kanye West fékk þrjátíu grime-listamenn með sér upp á svið á bresku tónlistarverðlaununum í fyrra.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Enn einn Snapchat-perrinn
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Heiðar tjáir sig um Kveiksmálið og segir engin annarleg sjónarmið búa að baki ákvörðuninni

Heiðar tjáir sig um Kveiksmálið og segir engin annarleg sjónarmið búa að baki ákvörðuninni
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Sjáðu myndbandið umtalaða – Klopp og Salah rifust á hliðarlínunni

Sjáðu myndbandið umtalaða – Klopp og Salah rifust á hliðarlínunni
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

„Galið“ ef hún verður áfram á Íslandi

„Galið“ ef hún verður áfram á Íslandi
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Borga metfé fyrir frænda Maradona – Tvöfalda félagsmetið

Borga metfé fyrir frænda Maradona – Tvöfalda félagsmetið