

Lyngby Boldklub hefur ráðið Íslendinginn Valdimar Valdimarsson sem nýjan markmannsþjálfara félagsins, með sérstaka áherslu á starf akademíunnar.
Valdimar hefur starfað hjá Breiðabliki í rúm sjö ár í ýmsum hlutverkum, bæði sem þjálfari og markmannsþjálfari hjá yngri flokkum sem og meistaraflokkum karla og kvenna.
Þá hefur hann einnig starfað með yngri landsliðum KSÍ. Nýverið varð hann Íslands- og bikarmeistari með kvennaliði Breiðabliks, sem er einnig komið í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu kvenna.
Thomas Villadsen, yfirmaður markmannsmála hjá Lyngby, er afar ánægður með að hafa náð að fá Valdimar til Lundtoftevej.
„Valdi er á margan hátt sterkur prófíll með mikla reynslu að baki frá fyrra starfi sínu hjá Breiðabliki á Íslandi. Hann mun án efa lyfta markmannsþjálfuninni hjá Lyngby enn frekar. Hann býr yfir bæði mannlegum og faglegum eiginleikum sem falla vel að menningu félagsins,“ segir Villadsen.
Hann bætir við að Valdimar geti bæði þróað unga markmenn akademíunnar áfram og jafnframt veitt þjálfurum félagsins uppbyggilega áskorun í daglegu starfi.
Valdimar segist spenntur fyrir nýju verkefni. „Sem Íslendingur hef ég lengi séð sterk tengsl Íslands og Lyngby í gegnum leikmenn eins og Freyr, ALfreð, Andra, Sævar og fleiri. Allir tala vel um félagið og fólkið þar. Þegar tækifærið bauðst sló ég til,“ segir hann.
„Ég hlakka til að vinna með metnaðarfullu fagfólki og hjálpa markmönnunum að ná sínum fulla möguleika.“