

Gary Neville hefur hvatt yfirstjórn Manchester United til að hætta að gera tilraunir með ráðningar knattspyrnustjóra í kjölfar óvænts brottreksturs Ruben Amorim.
Portúgalski stjórinn var rekinn á mánudagsmorgun, innan við sólarhring eftir að hann lét óvenju harðorð ummæli falla í garð stjórnenda félagsins eftir 1-1 jafntefli gegn Leeds á sunnudag. Samkvæmt Daily Mail Sport var ákvörðunin um að láta Amorim fara þó tekin fyrr, nánar tiltekið á föstudag, eftir fund hans með knattspyrnustjóranum Jason Wilcox í kjölfar jafnteflis gegn Wolves síðasta þriðjudag.
Amorim hélt fast í sínar hugmyndir um leikstíl og kerfi með þremur miðvörðum, á meðan yfirstjórn United vildi sjá sóknarsinnaðri knattspyrnu. Neville sagði í viðtali við Sky Sports að kerfið hefði reynst flókið og að bæði leikmenn, þjálfari og félagið sjálft bæru ábyrgð á því að ekki hafi verið rétt byggt upp fyrir það.
Neville lagði áherslu á að United yrði að snúa aftur að sínum rótum. Hann vísaði til orða Bobby Charlton um að félagið stæði fyrir ævintýralegan, skemmtilegan og sóknarsinnaðan fótbolta.
„Tilraununum verður að linna,“ sagði Neville og bætti við að Manchester United ætti að taka áhættu, spila sóknarfótbolta og skemmta áhorfendum.