fbpx
Föstudagur 02.janúar 2026
Fréttir

Whippet hundur bjargaðist á ótrúlegan hátt úr bruna í Noregi – Íslenskur dýralæknir kom að meðferðinni

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 2. janúar 2026 14:00

Bati Blossom mun taka tíma. Myndir/TikTok

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Whippet tíkin Blossom komst í heimsfréttirnar eftir að hún bjargaðist á ótrúlegan hátt úr eldsvoða í bænum Ålesund í Noregi. Íslenskur dýralæknir kom að aðhlynningu hennar.

Eins og segir frá í umfjöllun tímaritsins Newsweek kom upp eldur á heimili hinnar 37 ára gömlu Anette Emeaus í Ålesund þann 15. nóvember síðastliðinn. Eldurinn kviknaði út frá rafmagnstæki í eldhúsinu og breiddist hratt út. Á innan við hálftíma var húsið brunnið til kaldra kola.

Allir mennskir íbúar hússins komust út en því miður brann annar af tveimur heimilisköttum inni. Fjölskyldan átti einnig tvo hunda og náði sonur Anette að bera Maltese tíkina Bellu út. Blossom var hins vegar föst í svefnherbergi á annarri hæð í alelda húsinu.

„Blossom var í herberginu þar sem henni fannst hún öruggust, í svefnherberginu mínu,“ sagði Anette. „Hún var í rúminu þegar eldurinn braust út, undir teppi sem hleypti reyknum ekki í gegn. Slökkviliðsmenn komust ekki til hennar út af hitanum. Þeir reyndu en brenndust illa, þannig að þeir einbeittu sér að því að sprauta inn vatni frá jörðinni.“

Stökk alelda út um gluggann

Allt leit út fyrir að þetta væri búið spil fyrir Blossom litlu. Herbergið fylltist af reyk og eldtungurnar nálguðust.

„En Blossom gafst aldrei upp. Einsömul, umkringd eldi, hélt hún áfram að berjast,“ sagði Anette. „Þegar eldurinn komst inn í svefnherbergið komu sprungur í gluggann vegna hitans. Þá lét Blossom til skarar skríða. Á síðustu sekúndunni stökk hún út og féll í snjóinn fyrir neðan.“

Þó að Whippet hundar séu ekki með mikinn feld þá var Blossom litla logandi þegar hún stökk út um gluggann. Eigendunum var mjög brugðið að sjá þessa sjón. Hún var mjög brennd og slösuð en á lífi.

Blossom hafði fengið alvarleg brunasár á um 40 prósent líkamans, einkum á vinstri hliðinni. Meðal annars var hún brunnin á augum, í andliti og á fótleggjunum.

„Ég veit að hún var staðráðin í að lifa þetta af því hún vissi að ég myndi ekki komast í gegnum þessa martröð án hennar,“ sagði Anette.

Í lífshættu

Blossom var í lífshættu. Eins og segir í fréttinni var hún fyrsti hundurinn í Noregi til þess að vera fluttur með sjúkrabíl með sírenuvæli á dýraspítalann. Hver einasta mínúta skipti máli ef það ætti að takast að bjarga lífi hennar.

Blossom komst lífs af á ótrúlegan hátt. Mynd/TikTok

Á spítalanum fékk hún vökva í æð til þess að lækka hitann. Þá var brunageli smurt á sárin og hún vöfð inn í sáraumbúðir. Einnig þurfti hún að fá súrefni og meðferð við reykeitrun.

Alls þurfti Blossom að vera í þrjár vikur á gjörgæsludeild þar sem fylgst var með henni allan sólarhringinn. Eftir það fékk hún að fara heim með Anette en hefur þurft að fara daglega á spítalann til að láta skipta um umbúðir.

Langt bataferli

Að sögn Anette taka þær einn dag í einu en meðferðin öll mun taka um þrjá mánuði. Meðal annars þarf Blossom að fá blóðgjafir, bólgueyðandi lyf og sérstakt próteinríkt fóður. Er Anette hæfilega bjartsýn á framtíðina.

„Blossom er báráttuhundur og hefur lent í ýmsu,“ sagði Anette. „Líkami hennar er að læknast, sárin að gróa og hún er stöðug. Skynfærin eru ósködduð og hún er byrjuð að líkjast sjálfri sér aftur.“

Íslendingar eiga þátt í þessari sögu þar sem íslenskur dýralæknir hefur komið að umönnuninni.

„Bati Blossom hefur tekist með hjálp fólks innan og utan landamæranna,“ sagði Anette. „Fyrst dýraspítalinn í Álasundi sem tók að sér áskorunina að bjarga henni. Við fengum einnig leiðsögn og stuðning frá íslenskum dýralækni, ítölskum dýralækni og frá frábæra ræktandanum hennar í Þrándheimi í Noregi.“

Sonurinn heiðraður fyrir hetjudáð

Anette lýsir meðferð og bataferli Blossom á samfélagsmiðlinum TikTok. Fjölmörg myndbönd hafa fengið mikið áhorf og jákvæð viðbrögð. Þá hefur fjölskyldan einnig hafið söfnun á síðunni GoFundMe þar sem hún glataði öllu í brunanum í nóvember.

Fjölskyldan hjá borgarstjóranum. Mynd/TikTok

Fjölskyldan býr nú hjá móður Anette. Hefur umönnun Blossom hjálpað þeim að komast í gegnum þetta og að komast aftur í vinnu og skóla.

Elsti sonur Anette, var heiðraður af borgarstjóra Ålesund, en hann bjargaði tveimur yngri systkinum sínum út úr brennandi húsinu. Blossom var viðstödd athöfnina.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Sigurður Kári segir Sjálfstæðisflokkinn eina hægri flokkinn – Framtíðarsýn Miðflokksins sé fátækleg

Sigurður Kári segir Sjálfstæðisflokkinn eina hægri flokkinn – Framtíðarsýn Miðflokksins sé fátækleg
Fréttir
Í gær

Af hverju var Pétur í viðtali?

Af hverju var Pétur í viðtali?
Fréttir
Fyrir 2 dögum
Innkalla rakettupaka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Miðflokksmaður ver myndbandið umdeilda – „Hvers vegna sér ungt fólk ekki framtíð á Íslandi?“

Miðflokksmaður ver myndbandið umdeilda – „Hvers vegna sér ungt fólk ekki framtíð á Íslandi?“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Gátu ekki lent í Keflavík og sneru við flugvélinni

Gátu ekki lent í Keflavík og sneru við flugvélinni