
Föður í Texas tókst að rekja staðsetningu 15 ára gamallar dóttur sinnar sem hafði verið numin á brott er hún var úti að ganga með heimilishundinn. Atvikið átti sér stað á jóladag í bænum Porter fyrir utan Houston, Texas.
Faðirinn beitti foreldrastillingu á símanum sínum til að rekja ferðir síma dóttur sinnar. Honum tókst að finna hana þar sem hún var stödd í skóglendi í Harris-sýslu, skammt frá áðurnefndum bæ, Porter. Stúlkan sat fáklædd inni í pallbíl.
Feðginin flúðu af vettvangi og faðirinn hringdi í lögregluna. Skömmu síðar handtók lögregla hinn 23 ára gamla Giovanni Rosales Espinoza eftir að vitni í nágrenninu gaf lýsingu á honum. Espinoza var úrskurðaður í gæsluvarðhald og kærður fyrir mannrán og ósiðsemi í garð barns. Lögregla komst að því að hann hafði ógnað stúlkunni með hnífi.
Lögreglustjórinn í Montgomery-sýslu, Wesley Doolittle, segir um málið í yfirlýsingu: „Jóladagur á að vera gleðidagur en þessi maður ákvað að rústa þeirri gleði með því að herja á barn. Ég er ótrúlega stoltur af lögreglufulltrúum og rannsóknarlögreglumönnum okkar sem sáu til þess að þetta hættulega rándýr var handtekið og hann er ekki lengur á almannafæri.“
Dómari hafnaði því að láta hinn grunaða lausan gegn tryggingu og situr hann áfram í gæsluvarðhaldi. Rannsókn málsins heldur áfram.
Meðal fjölmiðla sem hafa fjallað um málið er Metro.