
Morgan var ein heima, enda börn hennar í fríi með aðstandendum. Hún var farin að sofa en vaknaði við það þegar einhver kom inn í herbergi hennar. Hún sá mann í dyragættinni sem var glæddur í Batman-búning með grímu fyrir andlitinu.
Innbrotsþjófurinn barði Morgan, kyrkti hana og nauðgaði henni. Hún upplifði að hennar síðasta stund væri runnin upp.
Eftir árásina var Morgan illa haldin. Þá birtist hetjan. Fyrrverandi eiginmaður hennar Rodney sem bjó í nágrenninu. Hann hringdi í neyðarlínuna og sagðist hafa fengið ábendingu um að eitthvað væri í ólagi hjá hans fyrrverandi og komið að henni illa haldinni á veröndinni.
Lögreglan mætti umsvifalaust á svæðið. Þegar Morgan var svo viðræðuhæf tilkynnti hún lögreglu að Rodney væri ekki allur þar sem hann væri séður. Hún taldi raunar að það hefði einmitt verið hann sem réðst á hana. Hún útskýrði að eftir að innbrotsþjófurinn hafði lokið sér af og rétt áður en hann hafði sig á brott hafi hann sagt setningu sem lét kalt vatn renna milli skins og hörunds hennar. Hann nefndi sérstaklega að nú ætti Morgan að sakna eiginmanns síns og barna. Af hverju myndi innbrotsþjófur segja slíkt? Hún taldi því öruggt að þarna væri fyrrverandi eiginmaður hennar á ferðinni.
Lögreglu fannst Morgan trúverðug og ákvað að framkvæma húsleit hjá Rodney. Þar fundust sams konar plastbönd og höfðu verið notuð í árásinni og eins kom á daginn að áður en árásin átti sér stað hafði Rodney leitað skuggalegra upplýsinga á Google, svo sem hvað það tekur langan tíma að kyrkja einhvern í meðvitundarleysi, hversu langan tíma það tekur að svelta einhvern til dauða, hvernig hægt sé að dulbúa rödd sína og hvernig sé hægt að fá fyrrverandi maka til að vorkenna sér. Eins hafði hann lesið bók sem kallast 7 leiðir til að vera hetjan hennar. Aðspurð sagði Morgan að undanfarin misseri hefði Rodney verið að reyna að vinna hug hennar aftur og hafði beitt ýmsum brögðum í þeirri viðleitni sinni.
Til dæmis hafði hann logið því að Morgan að hann væri með krabbamein í brisi.
Rodney var handtekinn og játaði á endanum að hann væri engin hetja, heldur skúrkur. Líklega hefur það verið sterkur leikur hjá honum í ljósi þess að lögreglan taldi sig hafa skotheld sönnunargögn. Saksóknarinn orðaði það svo að þetta væri draumamál ákæruvaldsins enda væru sönnunargögnin yfirþyrmandi.
Hann hafði sett árásina á svið til að vinna aftur hjarta Morgan. Þau voru aðeins unglingar þegar þau felldu hugi saman. Rodney var ekki sáttur þegar Morgan ákvað að skilja við hann árið 2020. Hann situr nú í fangelsi að afplána 70 ára fangelsisdóm.