
Þann 7. desember síðastliðinn fundust mannabein í bílskúr í Richland-sýslu í Ohio. Bílskúrinn stendur hjá húsi sem er fyrir löngu yfirgefið.
Þrír vinir á framhaldsskólaaldri rákust á beinin er þeir voru að skoða yfirgefna húsið. Þeir héldu í fyrstu að beinin væru af dýri en svo ráku þeir augun í höfuðkúpuna. Þá höfðu þeir samband við lögreglu og tilkynntu fundinn.
Réttarmeinafræðingur sem fékk beinin til rannsóknar hefur með notkun á tannlæknaskýrslum náð að staðfesta að beinin eru af hinum 43 ára gamla Dustin R. Engler, manni sem hvarf í febrúar árið 2023.
Dánarorsök Englers liggur ekki fyrir en málið er í rannsókn. Með öllu er óljóst á þessu stigi málsins hvort honum var ráðinn bani.