
Karl Ágúst Úlfsson veðjaði á Spaugstofuna og setti alla sína krafta og tíma í hana en hafnaði öllum hlutverkum í leikhúsum. Hann var fyrst á sviði með Sigurði Sigurjónssyni 19 ára en samvinna þeirra hófst fyrir alvöru í Líf-myndunum, Dalalífi og Löggulífi, sem gerðar voru 1983 og 1985. Strax upp úr Löggulífi kom Áramótaskaupið 1985 sem af mörgum er talið besta Skaup allra tíma og þar hófst samstarfið sem þjóðin átti síðar eftir að elska í áratugi, Spaugstofan var mætt. Karl Ágúst er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Hér er hægt að hlusta á brot úrþættinum:
Karl Ágúst - 5
Spaugstofan, þið náttúrlega eruð heild. Ég held að það sé ekkert leyndarmál að þú varst nú ákveðinn svona drifkraftur alla vega í að skrifa og skapa en svo er þetta samvinnuverkefni. Þetta ert þú, þetta er Pálmi, þetta er Siggi Sigurjóns, Örn og Randver. Þetta hlýtur að hafa verið alveg einstakur félagsskapur.
„Já, hann var það náttúrlega, algjörlega. Og það var nú eitt af því sem að hélt okkur gangandi alla þessa tíð. Við erum mjög góðir vinir og okkur tókst mjög vel að vinna saman og eiginlega, þegar maður lítur um öxl, þá var það eiginlega með ólíkindum að hversu sjaldan við lentum upp á kant hver við annan. Það gerðist bara örsjaldan og þá var það eitthvað sem ekki entist lengi, entist kannski í hálftíma eða eitthvað en ekki, ekki mánuði eða ár. Hugmyndavinnan fór öll saman fram í okkar hóp, sameiginlegum hóp. Það tók kannski einhverja klukkutíma. Síðan tók ég við hugmyndunum og skrifaði handrit. Þannig að ég var í raun og veru handritshöfundur. Þar að auki var ég, sem sagt, í raun og veru sá, já, við getum kallað það leikstjóra.
En við getum líka kallað það bara framkvæmdastjóra, ég hafði öll samskipti við RÚV til dæmis, allar tæknideildir og slíkt. Þannig að það var ég sem undirbjó allar tökur. Og þessi hlutverk sem ég gegndi í þessum hóp, í þessari vinnu, þau gerðu það að verkum bara strax í upphafi að ég eiginlega kúplaði mig út úr íslensku leikhúsi.
Ég eiginlega kvaddi sviðið þar og þá vegna þess að það var ekki möguleiki að maður með þessi verkefni öll í fanginu gæti líka leikið hlutverk á sviði eða leikstýrt eða gert eitthvað sem sóst var eftir honum í.“
Hann er ekkert að fara að æfa og sýna þrisvar, fjórum sinnum í viku niðri í Þjóðleikhúsi eða Borgarleikhúsi.
„Ekki nokkur möguleiki. Þetta var náttúrlega mitt val en ég einhvern veginn veðjaði það vel á Spaugstofuna að ég neitaði öllum tilboðum sem ég fékk og svo náttúrlega hættu þau að berast vegna þess að ég var orðinn þekktur fyrir það að segja alltaf nei við öllu.
Ég gerði þetta að mínu aðalstarfi á meðan aðrir í hópnum voru líka leikarar í Þjóðleikhúsinu.“
Já. Akkúrat. En þú lést nú samt í bíómyndum og svona.
„Já, en það var eiginlega fyrir þennan tíma. Ef þú ert að tala um myndir eins og Líf-myndirnar, þær byrja sko ’83.“
Maður er bara orðinn svona gamall. Þú ert að tala um að það renni saman í tíma hjá þér, en það rennur saman hjá mér líka.
„Þar er ég eiginlega í fyrsta sinn að vinna með Sigga Sigurjóns að einhverju ráði. Við höfðum staðið saman einu sinni á sviði þegar ég var 19 og ekki byrjaður að læra leiklist og hann var nýútskrifaður. Þá vorum við í sýningu í Þjóðleikhúsinu. En þarna leikum við saman í svona tveimur myndum, það er að segja Dalalífi og Löggulífi. Og Löggulíf var gerð ’85. Og það er næstum því í framhaldi af henni sem að við tökum að okkur Áramótaskaupið, ’85. Það er Áramótaskaup sem við vinnum saman fyrst og eiginlega Spaugstofan verður til úr þeim hóp.“
Skaupið ’85. Það er náttúrlega bara, það er klassískt.
„Já, takk fyrir það. Takk fyrir það. Já, það er í miklu uppáhaldi hjá mörgum.“
Það var brotið eitthvað blað þar með áramótaskaup.
„Já, það var það. Og það sem er nú svolítið skrítið var að þetta Skaup var ekkert brjálæðislega mikil ádeila. Það var svolítið mikið verið auðvitað að hæðast að menningarumfjöllun, þarna voru til dæmis svona sjónvarps tónlistarvídeó alveg ný, höfðu ekki sést mikið í sjónvarpi fyrr en þarna rétt á undan, þannig að við tókum þau …“
Þá var MTV nýlega byrjað úti í, úti í Ameríku.
„Já, einhverjir íslenskir kvikmyndagerðarmenn voru farnir að reyna að gera svona íslensk vídeó. Þetta heppnaðist mjög misjafnlega. En við tókum þetta fyrir og við notuðum síðan þessa sérkennilegu hugmynd, sem virkaði mjög vel í Skaupinu, að nota alvöru skot af pólitíkusum og snúa út úr fyrir þeim með því að koma með spurningu á undan svarinu sem einhvern veginn gerði svarið hlægilegt.
Þetta þótti náttúrlega mjög merkilegt og tímamót í þessu. Eitt af því sem mér þykir nú vænst um í þessu Skaupi var það að ég fékk að vinna með Ólafi Gauk. Ólafur Gaukur var þá að ljúka námi sínu sem hann tók á fullorðinsaldri í kvikmyndatónlist í Bandaríkjunum, var í skóla í Hollywood. Við völdum hann sem tónlistarstjóra í þessu Skaupi og hann samdi megnið af músíkinni við texta sem ég fékk að gera, söngtexta, þannig að þarna sem alveg glænýr, ungur maður, blautur á bak við eyrun, fékk ég að vinna með Ólafi Gauk sem ég hafði náttúrlega dást að alveg óendanlega frá því ég var krakki.“
Þetta Skaup er ódauðlegt. Meira að segja í slagnum um veiðigjöldin í vor og sumar, þá komu auglýsingar frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi þar sem var sérstaklega minnst á þetta Skaup.
„Já, var það? Það hefur farið fram hjá mér, það er gaman að heyra.“