fbpx
Miðvikudagur 10.desember 2025
EyjanFastir pennar

María Rut Kristinsdóttir: Á óttaslóðum

Eyjan
Miðvikudaginn 10. desember 2025 06:00

Mynd/Getty Images

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég finn mig æ oftar staldra við og setja hljóða í samfélagsumræðunni. Hvort sem er í samhengi alþjóðamála eða hér heima. Mér finnst við vera á rangri braut. Við gleymum að horfast í augu, ræða saman, rökræða og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Og verst af öllu, þá finnst mér við vera að falla fyrir eldgömlum brellum sem popúlistar nota til að sundra, tortryggja og ala á einni erfiðustu og flóknustu tilfinningu heims: Ótta.

Vörn eða flótti

Ótti er öflug tilfinning. Þegar við finnum fyrir honum þá hverfur oft rökhyggjan, skynsemin dofnar og frumstæðar hvatir taka yfir. Þetta er ekki aðeins sálfræðileg tilfinning – hún er einnig lífeðlisleg. Gjarnan lýst sem „fight or flight“ eða einhvers konar varnar- eða flóttaviðbragð líkamans. Það er hluti af frumstæðu varnarkerfi sem hjálpar okkur að lifa af þegar heilinn skynjar ógn. Heilinn sendir út boð út í líkamann og búmm, kerfið fer af stað.

Líkt og í seiðpotti Seiðríks fáum við orkuskot. Hormónar fara á fullt, hjartað slær hraðar, andardrátturinn verður dýpri, blóðflæði eykst, sjáöldrin stækka og sviti eykst. En það sem meira er, er að hugsunin þrengist. Við hugsum aðeins um eitt, að lifa af.

Það getur reynst mjög flókið að rökræða við manneskju sem er heltekin af ótta. Ég hef reynt það oft á eigin skinni (sérstaklega í flugi) og ég veit það vel að það þýðir ekkert að rökræða við mig þegar ég í þessu ástandi. Konan mín getur vottað fyrir það. Ógnin verður einfaldlega að líða hjá.

Óttinn sem pólitískt stjórntæki

Það eru til stjórnmálaöfl sem statt og stöðugt reyna að grafa undan grunngildum okkar um frelsi, mannréttindi, alþjóðasamvinnu og lýðræði. Þau gera það meðal annars með því að skapa ótta. Með góðum árangri. Popúlískur boðskapur byggir á sterkri ógnarmyndun. Ógnin er þá sett fram sem bráðavandi. „Íslensk þjóð er í hættu“, „Vestræn siðmenning er í hættu“ og svo er hún persónugerð „vegna stöðugs straums innflytjenda til landsins“ eða „vegna þess að hinsegin fólk er að grafa undan grunngildum fjölskyldunnar og kristnum gildum“ svo dæmi séu tekin. Þannig verður til ótti.

Síðan bjóða þessir leiðtogar upp á einfalda lausn við ógninni. „Við lokum landamærunum“ við „bönnum hinsegin hjónabönd“ og þannig fær hinn almenni borgari þá tilfinningu að þarna sé á ferðinni sterkur leiðtogi sem standi vaktina.

Þetta svínvirkar vegna þess að fólk sem upplifir ótta þráir ekkert heitar en skjótar og einfaldar lausnir. Hrædd manneskja heyrir ekki í flóknum skýringum. Hún þráir einföld svör og auðvelda lausn frá tilfinningunni. Og þetta bjóða popúlistarnir upp á í pakkadíl.

Leikrit án lausna

Kjarni málsins er síðan sá að popúlismi býður sjaldan upp á raunverulega lausnir. Engin skýr stefna. Engar aðgerðir. Engin spil á borðinu. Tala bara um vandamálin. Leikrit án lausna.

Þannig heldur viðbragðið áfram. Leiðtoginn finnur næstu ógn og þá næstu. Magnar upp tilfinningu um óstjórn og óreiðu. Heldur kjósendum sínum í varnarviðbragðinu. Og þannig verður hann sjálfur skilyrtur sem lausnin við óþægilegri tilfinningu. Meðalið. Og eðlilega er auðvelt að hrífast með. Meðvitað eða ómeðvitað.

Við verðum að viðurkenna óttann

Ótti er raunveruleg tilfinning. Ein mestu mistök stjórnmála á síðari árum er að afskrifa ótta sem fordóma eða fáfræði. Þar er ég sjálf sek. En þetta er dýpra en svo. Við eigum að leggja okkur fram um að skilja hvaðan óttinn stafar. Skilja rætur hans og hlúa að þeim.

Samfélagið okkar er að mínu mati ekki á slæmum stað. Það gengur almennt ágætlega hjá okkur. Ég held að vestræn siðmenning sé ekki á undanhaldi. En það er alveg rétt að fæðingartíðni er lág. Það er líka rétt að aðflutningur fólks er mikill. Og auðvitað eigum við að vernda íslenska tungu, menningu og þjóðararfinn. En þetta eru viðfangsefni, ekki ógnir. Við leysum þær ekki í óttaástandi. Hvað þá með því að grafa undan grunngildum okkar. Við leysum þær með yfirvegun, gagnrýnu samtali og aðgerðum á sterkum lýðræðislegum grunni.

Sterk grunngildi og hornsteinar

Grunngildi vestrænna lýðræðisríkja byggja á mannréttindum, gagnsæi, virðingu fyrir fjölbreytileika, alþjóðalögum, frjálsum fjölmiðlum og ábyrgri valdbeitingu. Þetta eru hornsteinarnir sem reistir voru eftir að Evrópa upplifði á eigin skinni ódæðin sem fasismi og þjóðernishyggja geta fætt af sér.

Nú hefur eitt valdamesta ríki heims boðað endurhönnun alþjóðakerfisins. Þar sem frelsi og frið er skipt út fyrir einangrun og ótta. Ný útflutningsvara. Þar sem mannréttindi eru samningsatriði, grafið er undan lýðræði, fjölmiðlar svertir, réttarkerfi og stofnanir. Fleiri líkt þenkjandi munu fylgja eftir. Og eru þegar byrjaðir.

Ættum við kannski að frekar að óttast þann sem boðar stöðuga ógn?

Við höfum val

Það er einnig ástæða til að staldra við spyrja: Hver er framtíðarsýn þessara einstaklinga? Verðum við sterkari þjóð með aukinni einangrun? Með minni samvinnu og skertu frelsi einstaklingsins? Með minni fjölbreytileika? Þar sem dregið er úr frjálsum viðskiptum og alþjóðasamvinnu? Með aukinni tortryggni og sundrung?

Ég efast persónulega um það. En hvað ætlum við að gera?

Ætlum við að vera áfram á traustum grunni lýðræðis- og frelsisslóða, eða feta óljósan veginn á óttaslóðum?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Banaslys í Mosfellsbæ

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Einum leiðarstjarna – öðrum mýrarljós

Þorsteinn Pálsson skrifar: Einum leiðarstjarna – öðrum mýrarljós
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Hvernig væri lífið án EES?

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Hvernig væri lífið án EES?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Allar hinar Nínurnar

Nína Richter skrifar: Allar hinar Nínurnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Breytt flokkakerfi og ný framtíðarmynd

Þorsteinn Pálsson skrifar: Breytt flokkakerfi og ný framtíðarmynd
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Engin dulnefni hér, takk

Nína Richter skrifar: Engin dulnefni hér, takk
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Uppblásinn hoppukastali Sjálfstæðismanna til sölu – nafnið öfugmæli

Svarthöfði skrifar: Uppblásinn hoppukastali Sjálfstæðismanna til sölu – nafnið öfugmæli
EyjanFastir pennar
08.11.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Hjólað í snjókomu

Óttar Guðmundsson skrifar: Hjólað í snjókomu
EyjanFastir pennar
07.11.2025

Nína Richter skrifar: Þegar kærastar urðu asnalegir

Nína Richter skrifar: Þegar kærastar urðu asnalegir