
Hilmar Gunnarsson, ritstjóri Mosfellings, hefur ákveðið að gefa kost á sér í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ fyrir komandi sveitastjórnarkosningar. Þetta kemur fram í færslu Hilmars á Facebook-síðu hans nú fyrir stundu.
„Kæru vinir. Það er komið að því að skipta um gír. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ sem fram fer þann 31. janúar 2026. Ég hlakka til að takast á við nýjar áskoranir og halda áfram að sinna mínu helsta áhugamáli, sem er Mosfellsbær,“ skrifar Hilmar í færslunni.
Hann hefur ritstýrt bæjarblaðinu í yfir 20 ár og hefur auk þess verið verkefnastjóri Hlégarðs, samkomuhússins sem er miðstöð lista- og menningarlífs í Mosfellsbæ.