
Parið var í bifreið sinni í Tor Tre Teste-garðinum í austurhluta borgarinnar þegar mennirnir komu aðvífandi. Brutu þeir rúðu í bifreiðinni með flösku og drógu parið út.
Var manninum haldið niðri á meðan annar úr hópnum dró konuna út úr bílnum og nauðgaði henni fyrir framan manninn. Mennirnir flúðu af vettvangi í kjölfarið, en parið leitaði sér aðstoðar á næsta spítala.
Konan sem varð fyrir árásinni er sögð vera 18 ára en maðurinn 24 ára.
Matteo Salvini, innviða- og varaforsætisráðherra Ítalíu og formaður Norðurbandalagsins, var ómyrkur í máli á samfélagsmiðlinum X í gær.
„Á sama degi og á að vekja athygli á ofbeldi gegn konum berast okkur þessar skelfilegu fréttir. Við leggjum til efnafræðilega geldingu til að stöðva nauðgara og barnaníðinga, og tillagan okkar er þegar komin fyrir þingið. Allir þurfa að leggja sitt af mörkum […] Við verðum að uppræta ofbeldið.“
Lögreglumaður sem kom að málinu segir við Daily Mail að árásin hafi verið sérstaklega óhugnanleg og parið hafi verið beitt miklu ofbeldi.
Mennirnir eru sagðir hafa sagt í yfirheyrslum hjá lögreglu að þeir hefðu ætlað að ræna parið til að eiga fyrir fíkniefnum. Þeir hefðu gert það áður og einkum beint spjótum sínum að vændiskonum í borginni.