fbpx
Fimmtudagur 20.nóvember 2025
Eyjan

Guðrún gagnrýnir að til skoðunar sé að rukka Bláa lónið og fleiri fyrir varnargarðana – „Það eru kaldar kveðjur“

Eyjan
Fimmtudaginn 20. nóvember 2025 11:38

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra hefur farið fram á að dómkvaddir verði matsmenn til að meta kostnað ríkissjóðs af aðgerðunum á Reykjanesskaga, en til skoðunar er að rukka þá aðila sem hagsmuna eiga að gæta á svæðinu um hluta kostnaðar við varnargarðana.

Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins spurði ráðherra út í þetta mál í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Þykir henni ráðherrann hafa tekið upp óumbeðinn erindrekstur og sent kaldar kveðjur til þeirra sem eiga sárt um að binda vegna náttúruhamfara.

„Hingað til hefur ríkið tekið almannavarnahlutverk sitt alvarlega og ræktað það af alúð og tillitssemi gagnvart þeim sem hamfarirnar ógna einna helst, en nú virðist einhver breyting ætla að verða þar á. Í fyrsta sinn hefur fjármálaráðherra litið svo á að almannavarnir séu einhvers konar óumbeðinn erindisrekstur og þeir sem bíða tjón vegna náttúruhamfara eru taldir hafa auðgast á óréttmætan hátt við það eitt að ríkið sinni almannavarnahlutverki sínu. Það eru kaldar kveðjur til þeirra sem eiga um sárt að binda vegna náttúruhamfara, að þeir megi búast við kröfubréfi frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vegna almannavarnaaðgerða ríkisins.“

Guðrún spyr hvort Daði Már ætli að halda kröfum sínum á hendur fyrirtækjum á Reykjanesskaga til streitu og hvað þessi vegferð hefur kostað ríkissjóð í lögfræðikostnað.

Daði Már benti á að krafan sem stendur er um dómkvaðningu matsmanna. Það sé mikilvægt að halda utan um kostnað sem til hefur fallið vegna varnargarðanna og ábata sem af því starfi hefur verið.

„Ástæðan fyrir því er einföld: þessi viðbrögð við eldgosavá eru íslensk uppfinning og það að fá mat á ábatann af slíkum aðgerðum skiptir gríðarlega miklu máli þegar kemur að því að verja hagsmuni Íslands í endurtryggingum á mögulegum tjónum. Uppsetning varnarmannvirkja vegna annarrar náttúruvár, svo sem eins og snjóflóða, hefur áhrif á kjör Náttúruhamfaratryggingar Íslands vegna endurtrygginga á snjóflóðum á þeim svæðum sem eru útsett fyrir slíka hættu.“

Guðrún steig aftur í pontu og vísaði í matsbeiðnina en þar segir berum orðum að ríkið líti svo á að það eigi kröfu á hendur þeim aðilum, sem áttu þá hagsmuni sem var forðað frá tjóni með aðgerðunum, um endurgreiðslu hluta kostnaðar. Vildi Guðrún vita hvort Daði ætli að standa við þessa matsbeiðni eða draga hana formlega til baka. Guðrún spurði líka hvort það væri eðlilegur skilningur á almannavörnum að ríkið reyni að innheimta kostnað.

„Ætlar fjármálaráðherra nú að rjúfa þá þjóðarsátt að í erfiðleikum stöndum við, íslenska þjóðin, saman?“

Ráðherra sagði ekki standa til að rjúfa þjóðarsátt. Það sé þó eðlilegt að krafa sé sett fram með þessum hætti enda um að ræða mannvirki sem ekki eru tryggð af Náttúruhamfaratryggingu heldur af erlendum endurtryggingum beint.

„Það er fullkomlega eðlilegt að við látum á það reyna hvort sá kostnaður sem af þessu hlýst gæti endurheimst að einhverju leyti til þeirra sem tryggja starfsemi sem nýtur ekki trygginga Náttúruhamfaratryggingar.“

Aðgerðirnar umræddu hafa meðal annars gætt hagsmuna aðila á borð við Bláa Lónið, HS Veitur, Hraunsetur ehf., Íslenskar heilsulindir ehf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn og Jón Þorláksson

Óttar Guðmundsson skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn og Jón Þorláksson
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jón Guðni Ómarsson: Lánin óhagstæðari ef vextir eru festir út lánstímann

Jón Guðni Ómarsson: Lánin óhagstæðari ef vextir eru festir út lánstímann