fbpx
Laugardagur 15.nóvember 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Jöfnuðurinn einn tryggir lýðræði og mannréttindi

Eyjan
Laugardaginn 15. nóvember 2025 13:30

Mynd/Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Reglulega þarf að minna á þau mikilvægu gildi sem gefa samfélögum svipmót mannúðar og mildi, en þau lúta einkum og sér í lagi að jöfnuði, velferð og friði, því helsta heilbrigðismerki sem einkennir eftirsóttustu þjóðir heimskringlunnar.

Og hversu oft hefur ekki verið reynt að halda öðru fram?

Þegar aldarfjórðungur er liðinn af nýrri öld er svo komið að vinstrihreyfingar og frjálsyndir miðjuflokkar freista þess að standa vörð um mannréttindi og frelsi af hvaða tagi sem er, meðal annars í þeim mæli að rétta lítilmagna heimsins hjálparhönd, en íhaldssamir hægrimenn eru aftur á móti að forherðast svo stappar nærri fyrirlitningu á fjölbreytileika mannlífsins, jafnvel þeir ungu heima á Íslandi sem kenna sig við stuttbuxur, vilja sækja lengra inn i þrengslin, innstu bergmálshella öfganna sem telja réttarríkið full til dýrt í rekstri samneyslunnar, og þá ekki síst fjölmenninguna sem þeir fyrirlíta og smána, enda eigi hún ekki heima hér á landi.

Gamla hægrið er nefnilega ekki nema svipur hjá sjón – og hefur skroppið saman í skelfinguna eina. Það sem áður var vestrænt og víðsýnt í fari þess og fasi er núna selt undir einangrun og ótta við næstu nágranna og marga gamla og trausta bandamenn. Vantrúin á vinsemd þjóðanna er alger – og opin landamæri eru til talin til þess eins fallin að eyðileggja innfædda menningu. Þess þá heldur að það þurfi að reisa girðingar og múra til að viðhalda hreinleika stofnsins og óumdeildum yfirburðum hans. Annars fari allt undir slæðuna, og afgangurinn á hnéskeljarnar.

En þetta er gamalt stef og sturlað.

Og hefur alltaf endað eins.

„Það eru komnir fram flokkar sem vilja öðru fremur vera í svefnherbergi annars fólks, og einkum undir sænginni.“

Síendurteknar rannsóknir frá síðustu öld og þeirri sem nú slær kólfa klukkunnar leiða allar að sömu lyktum. Vísindin þekkja niðurstöðu mála. Og þau verða ekki einu sinni hrakin með falsfréttum og innantómum samsæriskenningum, en heldur ekki heimskunni einni saman, þeirri vanafestu að vera trúr sínu túni, og treysta ekki öðru en taðinu heima og tyrfnum veggjum sögunnar.

Þau samfélög sem skora hæst á alla mælikvarða, hvort heldur er fyrr og síðar, eru sannfærð um að þétta raðirnar, en regluverk þeirra hefur einatt gengið út á það að gefa sem flestum – og helst öllum – álíka tækifæra til að spreyta sig í lífinu, sem felast einmitt í sömu forgjöf allra þegna þjóðfélagsins til fæðu og húsaskjóls, heilbrigðis og mennta, og annarra þátta í sterkri og óspilltri opinberri þjónustu sem rekin er af réttsýni og sanngirni.

Hinn kosturinn, að þeir ríku ráði mestu, og helst öllu, hefur nefnilega alltaf rifið niður samstöðuna og skilið eftir sig sjúklega sundrað samfélag sem engum hugnast, nema einmitt þeim efnuðustu, sem eiga fyrir vikið hvað auðveldast með að stela völdum og sitja að þeim til frambúðar.

Sátt eða sundrung. Jöfnuður eða græðgi. Almennar reglur eða ótti.

Nú um stundir er fiðlunni strokið rangsælis í mörgum kræsilegustu fyrirsögnum fjölmiðlanna. En hún er jafn fölsk og hún er óheyrileg. Það er kallað eftir einsleitni og það er krafa uppi um afslátt af kvenfrelsi, kynfrelsi og almennt því að eiga sig sjálfur. Það má jafnvel ekki tala aðrar tungur en þær sem helst hafa verið til heimsbrúks.

Það eru komnir fram flokkar sem vilja öðru fremur vera í svefnherbergi annars fólks, og einkum undir sænginni, því þeir treysta ekki lengur undirsátum valdsins til að taka ábyrgð á eigin líferni.

Þeir æpa í pontu og öskra á torgum af hræðslunni einni saman við frelsi einstaklingsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Búðarrölt lögreglustjórans

Óttar Guðmundsson skrifar: Búðarrölt lögreglustjórans
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Þessir fokking baráttudagar kvenna

Nína Richter skrifar: Þessir fokking baráttudagar kvenna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Kvennafrídagurinn breytti öllu

Sigmundur Ernir skrifar: Kvennafrídagurinn breytti öllu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Kerfislega mikilvægt fyrirtæki í vanda

Kerfislega mikilvægt fyrirtæki í vanda
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Sic transit gloria mundi

Björn Jón skrifar: Sic transit gloria mundi
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem er á móti frjálsri fjölmiðlun

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem er á móti frjálsri fjölmiðlun