
ÍA skoðaði þann möguleika að fá Júlíus Mar Júlíusson frá KR en verðmiðinn þótti of hár. Þetta kemur fram í Dr. Football.
Júlíus heillaði framan af móti í sumar en var kominn á bekkinn undir lok tímabils. Hann hefur þó vakið athygli annarra liða og meðal annars verið orðaður við Lyngby í Danmörku.
Albert Brynjar Ingason sagði frá því í Dr. Football í dag að ÍA hafi heyrt í KR varðandi Júlíus og fengið svör um að hann væri fáanlegur, en ekki fyrir minna en 15 milljónir. Skagamenn voru ekki til í slíkt og bökkuðu út úr viðræðunum.
Júlíus er 21 árs gamall og gekk hann í raðir KR frá Fjölni fyrir síðustu leiktíð.