

Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolta.net, er staddur í Bakú að fylgja eftir íslenska karlalandsliðinu sem mætir Aserbaísjan í undankeppni HM annað kvöld. Hann kannaði aðstæður á leikvanginum í dag og eitt vakti athygli.
Þetta er afar mikilvægur leikur fyrir Strákana okkar. Sigur þýðir líklega að jafntefli muni duga gegn Úkraínu í lokaleik undankeppninnar til að komast í umspil um sæti á HM vestan hafs næsta sumar. Umspilið færi þá fram í mars.
Leikurinn annað kvöld fer fram á Neftci-leikvanginum í Bakú og tók Elvar eftir því að Arnar Gunnlaugsson fær afar lítið pláss til að athafna sig, en aðeins 2 metrar eru frá varamannaskýlinu og að leikfletinum sjálfum.
„Þegar völlurinn var skoðaður vakti strax athygli að þar er þröngt á þingi og stúkurnar ofan í vellinum. Arnar landsliðsþjálfari, sem er vanur ógnarstórum boðvangi Laugardalsvallar, fær ekki mikið pláss til að athafna sig meðan á leik stendur,“ skrifar Elvar meðal annars í skýrslu sína um leikvanginn.