
Joan Laporta, forseti Barcelona, segir að engin eftirsjá fylgi því að horfa til baka á brottför Lionel Messi frá félaginu.
Messi yfirgaf Barcelona frítt 2021 vegna fjárhagsvandræða. Samningur hans var að renna út og ekki var hægt að endursemja. Argentínumaðurinn fór til Paris Saint-Germain og spilar með Inter Miami í Bandaríkjunum í dag.
„Þrátt fyrir allt sem gerðist sé ég ekki eftir neinu. Barcelona er mikilvægara en allt annað. Þetta er ekki niðurstaðan sem við vildum öll en það var ekki hægt að gera annað á þessum tímapunkti,“ segir Laporta.
Hann var þá spurður að því hvort möguleiki væri á að besti leikmaður sögunnar kæmi á láni til Barcelona í vetur til að loka sínum kafla hjá félaginu almennilega.
„Af virðingu við Messi, leikmönnum okkar og öllum hér skulum við ekki vera að tala um svo óraunhæfa hluti,“ sagði Laporta.