
Enska landsliðsvarnarmaðurinn Reece James segist ekki hafa neinar áætlanir um að tala við Donald Trump á heimsmeistaramótinu 2026 í Norður-Ameríku.
England, undir stjórn Thomas Tuchel, hefur þegar tryggt sig inn á HM sem fram fer í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó. James, sem missti af bæði EM 2024 og HM 2022 vegna meiðsla, er kominn aftur í hópinn og gæti orðið fyrsti kostur Englands í hægri bakverði, sérstaklega þar sem hann nýtur mikils trausts hjá Tuchel, sem hann vann með hjá Chelsea.
Í nýju viðtali var James spurður hvort hann myndi heilsa forseta Bandaríkjanna ef England myndi vinna keppnina og hann stæði á verðlaunapallinum eins og hann gerði eftir sigur Chelsea á HM félagsliða í sumar.
„Nei! Ég hef engar slíkar áætlanir. Ég læt það í hendur Harry Kane,“ sagði James þá léttur.
Trump vakti athygli þegar hann steig upp á verðlaunapallinn eftir sigur Chelsea á PSG í úrslitaleik HM félagsliða í Bandaríkjunum í sumar og var þar á meðan enska liðið tók við bikarnum.