Listamaðurinn Páll Ivan frá Eiðum hefur um margra ára bil búið til nánast óteljandi popplög og sett þau bara beint inn á Soundcloud. Lögin hafa þó aldrei verið gefin út með formlegum hætti en nú á að ráða bót á því.
„Fyrir einhverju síðan fékk ég skilaboð frá ókunnugum manni (Dr. Gunna) og þar spyr hann mig hvers vegna ég hafi ekki gefið út plötu og hvort mér finnist plötur asnalegar. Nú, einhverjum vikum síðar er búið að mixa og mastera 15 laga plötu!“ segir Páll Ivan í tilkynningu sem hann sendi á fjölmiðla.
Páll Ivan hefur nú hafið söfnun á Karolina Fund fyrir útgáfu 15 laga LP plötu. Þess má til gamans geta að hljómsveitin FM Belfast hefur gert remix af einu laganna af þessu tilefni.
Lögin hafa öll nú þegar verið tekin upp, hljóðblönduð og masteruð en nú á eftir að hanna og prenta umslag, fjölfalda, dreifa og kynna plötuna sjálfa.
Söfnuninni lýkur 31.mars og verkefnið má sjá hér. Hér fyrir neðan má sjá eitt myndband með Páli.
Páll Ivan frá Eiðum – Expanding from Elvar Gunnarsson on Vimeo.