

Liverpool gæti þurft að vera án Mohamed Salah í allt að sex vikur en fundað verður um málið í tengslum við Afríkukeppni landsliða.
Salah, 33 ára, á að funda með landsliðsþjálfara Egyptalands, Hossam Hassan, í næstu viku til að forðast enn eitt ágreiningsmálið milli félags og landsliðs.
Egyptaland hyggst hefja æfingabúðir og spila vináttuleik frá og með 8. desember, þar á meðal stórleik gegn Nígeríu í Kaíró. Samkvæmt alþjóðareglum hefur Hassan rétt á að kalla Salah inn í þann undirbúning.
Liverpool vonast þó til að fá að halda framherjanum lengur, þar sem liðið á mikilvæga leiki á sama tíma gegn Inter í Meistaradeildinni og Brighton í ensku úrvalsdeildinni.
Að sögn Daily Mail vill Salah sjálfur helst spila þessa leiki með Liverpool áður en hann mætir til landsliðsins.
Arne Slot og stjórn Liverpool vinna nú að lausn sem hentar báðum aðilum.