

Ian Jeffs hefur verið ráðinn aðalþjálfari meistaraflokks kvenna hjá Breiðabliki. Þjálfaraferill Ians hófst fyrir rúmum tíu árum síðan, þegar hann tók við þjálfun kvennaliðs ÍBV í efstu deild Íslandsmótsins. Á þeim fjórum árum sem hann stýrði ÍBV, kom hann liðinu m.a. tvisvar sinnum í bikarúrslit og varð bikarmeistari 2017.
Hann var aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins frá hausti 2018 til ársloka 2020 og átti sinn þátt í að þátttökurétturinn á Evrópumót landsliða var tryggður þá fyrir mótið 2022. Ian þjálfaði síðan karlalið Þróttar í tvö tímabil, þar sem hann stýrði liðinu m.a. upp um deild. Árið 2024 tók hann síðan við karlaliði Hauka, þar sem hann lét af störfum að nýloknu keppnistímabili.
Sem leikmaður spilaði Ian Jeffs m.a. með ÍBV, Val og Fylki og á yfir 200 leiki í efstu deild á Íslandi. Þá spilaði hann einnig með Crewe á Englandi og Örebro í Svíþjóð. Hann er menntaður íþróttafræðingur frá HR og er að ljúka UEFA Pro gráðu í nóvember.
“Það er mikill heiður að Breiðablik að hafi leitað til mín og sýnt mér traust til að stýra sterku og öflugu liði félagsins. Ég er spenntur að hefja störf og mun leggja mig allan fram í að halda áfram með metnaðarfullt starf félagsins. Áfram Breiðablik!” segir Ian Jeffs.
,,Með ráðningu Ian vil Breiðablik tryggja að liðið sé áfram í allra fremstu röð og að metnaður og fagmennska sé í fyrirrúmi í öllu starfi í kringum liðið á komandi misserum.
Við bindum miklar vonir við komu Ian Jeffs og hlökkum til að sjá liðið undir hans stjórn,” segir á vef Blika.