fbpx
Þriðjudagur 04.nóvember 2025
Fréttir

Forsjárlaus 16 ára unglingur dæmdur fyrir ítrekaðar líkamsárásir gegn strætóbílstjóra

Ritstjórn DV
Mánudaginn 3. nóvember 2025 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sextán ára unglingur hefur verið dæmdur fyrir ítrekaðar líkamsárásir, fíkniefna- og vopnalagabrot. Dómur féll í Héraðsdómi Reykjaness þann 20. október. Athygli vekur að téður unglingur er umkomulaus en dómari tók fram að samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá sé forsjá drengsins óþekkt. Móðir hans afsalaði sér forsjá hans og faðir fer ekki með forsjá.

Ákæran var í mörgum liðum og varða brot sem áttu sér stað á tímabilinu 17. september 2024 fram til 10. mars 2025.

Ákæruliðir voru eftirfarandi:

  • Líkamsárás 17. september 2024. Ákærði réðst á dreng eftir skólasund í Vatnaveröld og sló hann fjórum sinnum með krepptum hnefa í hægri öxl.
  • Líkamsárás 18. október 2024. Ákærði réðst á strætóbílstjóra í hurðagátt strætisvagns og sló hann einu höggi með krepptum hnefa í andlitið eftir að bílstjórinn reyndi að vísa honum úr vagninum.
  • Líkamsárás 30. nóvember 2024. Ákærði réðst á strætóbílstjóra og sló hann í andlitið þegar hann ætlaði að vísa honum úr vagninum. Afleiðingarnar voru að bílstjórinn hlaut þreifieymslu, bólgu, blóðnasir og það kvarnaðist úr framtönn hans.
  • Líkamsárás 12. desember 2024. Ákærði réðst á strætóbílstjóra sem neitaði að hleypa honum um borð og sló hann einu höggi með krepptum hnefa í andlitið svo bílstjórinn féll og skall með höfuðið í götuna. Ákærði féll með bílstjóranum og sló hann aftur í andlit og sparkaði í bringu hans. Þarna brotnaði króna af tönn bílstjórans.
  • Líkamsárás 25. janúar 2025. Ákærði réðst á föðursystur sína, sem hafði skotið yfir hann skjólhúsi, greip í hana og ýtti henni svo hún rak höfuðið á borðplötu. Ofbeldið hófst þegar frænka hans reyndi að setja honum mörk.
  • Líkamsárás 10. mars 2025. Ákæri réðst á strætóbílstjóra sem vísaði honum úr strætisvagni með því að ýta honum út um dyr strætisvagns svo bílstjórinn féll í jörðina þar sem ákærði hélt ofbeldinu áfram.
  • Fíkniefnabrot fyrir að hafa þann 22. september í vörslum sínum samtals 8,8 grömm af amfetamíni.
  • Vopnalagabrot fyrir að hafa í vörslum sínum þann 12. október á tjaldsvæði í Sandgerði silfurlitaðan hníf með 16 sm löngu blaði og hótaði að beita honum.
  • Fíkniefnabrot fyrir að hafa á meðferðarstöð haft 9,88 grömm af amfetamíni og 4,12 grömm af maríhúana í nærbuxum sínum.
  • Vopnalagabrot fyrir að hafa í vörslu sinni á almannafæri þann 20. febrúar 2025 stunguhníf með 10 cm löngu blaði.

Drengurinn var dæmdur í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára. Eins þarf hann að greiða bætur til brotaþola sinna, samtals 2.049.183 krónur. Hann þarf eins að greiða einum brotaþola 1.280.610 krónur í málskostnað og 2.857.050 krónur í sakarkostnað.

Vitni í málinu greindu frá því að ákærði glími við mikinn skapofsa. Meðal annars hótaði hann frænku sinni að kýla hana svo fast að hún færi í dá í eitt ár. Í annað skipti hafði drengurinn verið handtekinn og færður í fangaklefa eftir eina líkamsárásina og var þar mjög órólegur, kýldi út í loftið og dýnuna og skallaði hurðina á fangaklefanum. Hann hótaði eins að berja lögreglumenn þegar hann yrði laus og hótaði að drepa brotaþola.

Ákærði játaði sök varðandi eina líkamsárás sem og aðrar sakir en líkamsárásir og horfði það honum til málsbóta. Að öðru leyti neitaði hann sök. Dómari horfði sömuleiðis til þess að áverkar vegna líkamsárásanna voru minniháttar í öllum tilvikum nema tveimur þar sem annars vegar var um að ræða brotna tönn og hins vegar brotinn fingur. Varðandi fíkniefnalagabrotin væri um lítið magn fíkniefna að ræða. Þetta ásamt ungum aldri ákærða gæfi tilefni til að fresta fullnustu refsingar ef ákærði heldur almennt skilorð í tvö ár.

Þar sem drengurinn er forsjárlaus hafði bótakröfum fyrst verið beint að ákærða sjálfum. Verjandi hans benti á að hann væri ófjárráða sökum æsku og að bótakröfu hafi ekki verið beint að forsjáraðila eins og lög geri ráð fyrir. Kröfunni var síðar breytt til að beinast að barnaverndarþjónustu sem umsjónaraðila drengsins. Verjandinn taldi breytinguna of seint fram komna en dómari benti á að forsjá ákærða væri óþekkt og lögum samkvæmt færist forsjá barns til barnaverndarþjónustu þegar foreldrar hafa afsalað sér, eða verið sviptir, forsjá.

„Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá, sem lagðar voru fram við aðalmeðferð málsins, er forsjá ákærða óþekkt, en upplýst er að móðir hans hafi afsalað sér forsjá hans og að faðir fari ekki með forsjá. Í 1. mgr. 32. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er mælt fyrir um að hafi foreldrar afsalað sér eða verið sviptir forsjá barns hverfi forsjá þess til barnaverndarþjónustu að svo stöddu.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt