

Rúnar Kristinsson, þjálfari karlaliðs Fram, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni hér á 433.is.
Það vakti athygli þegar Simon Tibbling, Svíi sem á að baki glæsilegan feril í Skandinavíu og víðar, gekk í raðir Fram fyrir tímabil. Hann reyndist liðinu algjörlega frábær.
„Þegar einhver með þennan feril kemur til Íslands hugsa menn hvort hann sé ekki bara að koma að ná sér í krónur og aura til að klára ferilinn. Hann var ekkert að spá í það, enda á sultarlaunum hjá Fram miðað við marga útlendinga á Íslandi,“ sagði Rúnar og hló.
„Við vorum ótrúlega heppin því hann er frábær og hefur hjálpað okkur mikið, sérstaklega ungum leikmönnum. Hann elskar að spila fótbolta og mæta á æfingar. Hann talar aldrei um sinn fyrri feril, er bara eins og gaur út sveitinni, algjör toppmaður. Hann er ekkert að segja mér hvernig á að gera hlutina, kemur auðvitað með tips fyrir aðra leikmenn en er bara algjörlega frábær.“
Viðtalið í heild er í þættinum, sem má nálgast í spilaranum hér ofar, sem og á helstu hlaðvarpsveitum.