

Lisandro Martinez hefur tekið stórt skref í bataferli sínu eftir að hann sneri aftur til æfinga með aðalliði Manchester United á miðvikudag.
Argentínumaðurinn, sem er 27 ára, hefur verið frá keppni síðan í febrúar þegar hann sleit krossband í hné og þurfti að gangast undir aðgerð.
Martinez meiddist í 2–0 tapi gegn Crystal Palace á Old Trafford og var borinn af velli. Nú, átta mánuðum síðar, hefur hann loksins hafið fullar æfingar á Carrington-æfingasvæðinu.
Rúben Amorim, stjóri United, vildi þó ekki nefna ákveðna dagsetningu fyrir endurkomu varnarmannsins. „Honum líður vel og hnéð bregst mjög vel við. Ég vil ekki lofa ákveðinni viku eða degi en hann er nálægt því að vera leikfær,“ sagði Amorim á dögunum.
Martinez mun ekki taka þátt í leik United gegn Nottingham Forest um helgina, en möguleiki er á að hann verði í leikmannahópnum þegar liðið mætir Tottenham í Norður-London um næstu helgi.
Varnarmaðurinn öflugi meiddist þegar hann fór í tæklingu við Ismaila Sarr í leiknum gegn Palace, en endurkoma hans gæti reynst United gríðarlega mikilvæg.